Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Verðmæti skapandi greina eru ótvíræð og löngu sönnuð. Listir og menning eru ein okkar helsta útflutningsvara og laða hingað urmul ferðamanna. Það starfa fleiri við skapandi greinar á Íslandi en samanlagt við landbúnað, sjávarútveg og orkuiðnað. Við þurfum að standa með listnámi á háskólastigi. Undanfarinn aldarfjórðung hefur verið talað um húsnæði Listaháskólans. Ný staðsetning fannst í Vatnsmýri, önnur við Laugaveg, hönnunarsamkeppni var haldin, SS-húsið átti öllu að breyta og nú er von: Tollhúsið við Tryggvagötu hefur orðið fyrir valinu, samningur undirritaður milli ríkis og borgar og nú verðum við að standa við stóru orðin. Við verðum að gera það. Ráðherra Listaháskólans verður að standa föst á því að framkvæmdir hefjist og verði ekki áfangaskiptar. Það er ekki í boði að byrja á að taka eitt horn hússins í notkun og geyma önnur horn og hæðir þar til síðar, af því að þá rætist aldrei draumurinn um samvinnu þvert á listgreinar undir einu þaki. Við skuldum þjóðinni að búa nemum og kennurum við Listaháskóla Íslands sómasamlegar aðstæður af því að í áratugi hefur þessi grein verið að bíða eftir því. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er það ekki öruggt að þetta verði fjármagnað, hið nýja húsnæði Listaháskólans í tollhúsinu í fimm ára fjármálaáætlun næsta vor? Mun hæstv. ráðherra tryggja að verkinu verði fram haldið frá upphafi til enda svo að húsið komist allt í notkun á næstu þremur til fimm árum eins og talað var um í vor? Það er gríðarlega mikilvægt að loksins verði þetta að veruleika. Þegar ég útskrifaðist úr leiklistarskólanum 1998 þá var þetta handan við hornið. Það er mjög langt síðan.