Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:28]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins um samstarfssjóðinn. Það var ánægjulegt að sjá rektora fagna því af því að ég veit að þeir eru nú þegar í miklu samstarfi og það er mikill vilji til að fara í enn ríkara samstarf. En þarna er verið að skapa hvatningu til þess og fjárhagslega hvata til að ríða á vaðið og byrja það samstarf. Það er ekki síst vinna sem hefur verið unnin í sambandi við listnám. Ég sat málþing í vor á Akureyri þar sem var verið að ræða listnám víða um landið og hvernig samstarf Listaháskólans gæti verið við opinberu háskólana til að kenna listnám víðar og auka aðgengi að ýmsu listnámi. Það gæti verið mikilvægt skref varðandi það sem hv. þingmaður kemur sérstaklega inn á. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um endurskoðun á rekstrarformi. Skólinn er sjálfseignarstofnun sem ákveður þau gjöld sem eru við hann núna og getur ráðið því. En ég held að með t.d. auknu samstarfi og þeirri endurskoðun sem við erum í, í samtali við Listaháskólann, séu ákveðin tækifæri til að greiða aðgengi að listnámi og við munum síðan skoða hvaða fleiri skref við stígum í þá átt.