Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:30]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Fólk á að geta stundað nám á sínum eigin forsendum og ljósleiðaravæðingin hefur gert okkur kleift að geta stundað nám hvar sem er, hvenær sem er, svo lengi sem við höfum nettengingu. Sjálf hef ég lært fyrir próf heima í fjárhúsunum þannig að ég hef mjög góða reynslu af því hve tæknin getur nýst okkur vel alls staðar til að læra. En aftur á móti þá virðast margar háskóladeildir á Íslandi ekki vinna í takt við þá eftirspurn sem er eftir fjölbreyttu fjarnámi þannig að það þarf að fara að styrkja sérstaklega uppbyggingu fjarnáms í opinberum háskólum. Heimsfaraldurinn var gott spark inn í tækniöldina en nú þarf að gæta að því að ekki verði stigið skref til baka, sem virðist vera að gerast, heldur nýta nýfengna reynslu til að bæta og byggja upp fjarnámið. Háskólar fóru að gera fyrirlestra aðgengilega á netinu og það varð til þess að mörg sem áður áttu ekki möguleika á ákveðnu námi vegna fjarlægðar höfðu tækifæri til að skrá sig í það nám sem þau vildu. Öflugt fjarnám hefur gegnt veigamiklu hlutverki í byggðaþróun með almennri hækkun á menntunarstigi og möguleikum til að bregðast við þörf fyrir menntun á ákveðnum sviðum á tilteknum landsvæðum. Ég sé að nýr samstarfssjóður háskólanna, sem er að fullu fjármagnaður miðað við þessa áætlun, 2 milljarða kr. sjóður, ætti að geta nýst vel við uppbyggingu fjarnáms, enda hefur hæstv. ráðherra sjálf sagt það. En hefur ráðherra einhverjar hugmyndir um það hvernig sjóðurinn verði nýttur innan skólanna í tengslum við fjarnámið? Tæknibúnaður er í flestum tilvikum til staðar. Hvar liggur hvatinn innan skólanna til að byggja upp fjarnámið?