Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:28]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Að geta lesið sér til gagns er grunnfærni í lífinu, lykillinn að námi, þekkingarleit og þekkingarþróun hvers einstaklings. Óásættanlegt er að 39% barna í Reykjavík, eftir 2. bekk grunnskóla, lesi sér ekki til gagns — 39%. Að 38% 15 ára unglinga nái ekki grunnfærni í lesskilningi og stærðfræði er óásættanlegt (UNESCO 2020). Að 34,4% drengja og 19% stúlkna lesi sér ekki til gagns eftir tíu ár í grunnskóla er algerlega óásættanlegt. Þetta kemur fram í PISA-könnun 2018. Að 15 ára börn norskra og danskra innflytjenda skori hærra í PISA-könnunum í lesskilningi en íslenskir drengir á sama aldri og unglingar á Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðurlandi eystra. Það er óásættanlegt fyrir bókaþjóð sem er þekkt fyrir ómetanlegt framlag sitt til heimsbókmenntanna.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar Reykjavíkurborgar sýnir að 92,5% innflytjenda eru á rauðu og gulu ljósi hvað varðar íslenskukunnáttu og kunna sem sagt ekki íslensku. Skýrsla ASÍ árið 2020 sýnir að 10,8% af 19 ára ungmennum, 500 einstaklingar, eru hvorki í námi eða starfi. Það er hæsta hlutfall frá efnahagshruninu 2008. Kostnaður samfélagsins vegna þessa er gífurlegur, svo ekki sé talað um tapaðan mannauð og harmleik fyrir einstaklinga sem ekki fá notið sín í samfélaginu. Með þessari vanrækslu okkar á ungmennum okkar tapar íslenskt samfélag miklum mannauði þrátt fyrir að setja um og yfir 150 milljarða kr. á ári í leik- og grunnskóla.

Þessi afleita og grafalvarlega staða kallar á tafarlausar aðgerðir. Breska þingið brást við svartri skýrslu um lestrarkunnáttu barna með því að lögfesta bókstafahljóðaaðferðina í lestrarkennslu sem skyldi notuð í grunnskólum. Frakkar hafa gert hið sama. Mín spurning til hæstv. ráðherra er þessi: Hvað ætlar þú að gera í þessu ástandi, þessu algerlega neyðarástandi sem er algerlega á þína ábyrgð samkvæmt íslenskri stjórnskipun, íslenskri löggjöf?

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á að beina orðum sínum til forseta en ekki til annarra hv. þingmanna eða ráðherra.)