154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:59]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er kannski helst til skammur tími til að taka umræðu um útlendingamálin. Ég held að allir í þessum sal geti verið sammála um að það er ekki eðlilegt að við séum að eyða 15 milljörðum kr. í að bíða eftir að veita fólki svar. Það eru allir sammála um það. Það eru engir sáttir með þá stöðu mála að fólk þurfi að bíða í marga mánuði eftir já-i eða nei-i. Þannig að allt sem er hægt að gera til að bæta stjórnsýsluna og utanumhald í þessum málaflokki og koma í veg fyrir að það þurfi að eyða 15 milljörðum kr. í að greiða undir fólk sem er ekki búið að fá svar — annars vegar fólki sem á að fá nei vegna þess að það fellur ekki undir skilgreiningar um alþjóðlega vernd, eða fólki sem á að fá já og getur þá komið inn á íslenskan vinnumarkað. Við tökum heils hugar undir áhyggjur af því að þetta taki svona langan tíma og það að málsmeðferðarkostnaður sé að leiða af sér 15 milljarða kostnað í kerfinu sé óásættanlegt. Við erum boðin og búin að taka umræðu um það hvernig við getum stytt málsmeðferðartíma. Þetta er í fanginu á stjórnvöldum sem hafa verið með þennan málaflokk í tíu ár og ekki hægt að ætlast til þess að ég leysi þetta mál hérna á einni mínútu þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft tíu ár til þess.