154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:35]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það eina sem muni hjálpa fólki sem neyðist til að vera á leigumarkaði sé aukið framboð á húsnæði. Ef við erum að setja einhverjar kvaðir sem geta dregið úr framboðinu þá er enginn fyrirsjáanleiki í því, þegar fólk missir húsnæði og hefur í ekkert húsaskjól að leita. Því er það kappsmál að fjölga íbúðum á almennum markaði, gera umhverfið þannig.

Það er hægt að skoða ýmsa tekjuöflun í uppbyggingu atvinnuvega þannig að þeir borgi sem nota og annað slíkt en að fara að skattpína útflutningsgreinarnar sem skapa aukin verðmæti er kannski ekki rétta leiðin. Svo að fara að setja á bankaskatt, eins og hv. þingmaður kom inn á í sínu máli — það leggst beint ofan á vaxtakjör húsnæðislána sem er akkúrat vandamálið í dag. Þannig að ég held að við þurfum að endurskoða þessa stefnu eitthvað.