154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:38]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir ágæta ræðu um fjárlögin og hlakka til að halda þeirri vinnu og samtali áfram inn í þingveturinn í fjárlaganefndinni sem ég hef væntingar til að þingmaðurinn verði í í vetur. Það eru nokkrir hlutir sem mig langar að spyrja þingmanninn að. Þó að undirtónn ræðunnar hafi verið svona frekar neikvæður út í fjárlagafrumvarpið var ýmislegt þarna þar sem mér fannst glitta í að þingmaðurinn væri glaður með og ég ætlaði aðeins að fá það á hreint hvort ég hafi skilið hann rétt. Gistináttaskatturinn er eitthvað sem hann vill kannski hafa hærri en er mjög glaður með almennt. Stofnframlögin eru eitthvað sem hann fagnar. Varðandi heilbrigðiskerfið þá talaði hann um öldrun þjóðarinnar í sinni ræðu, að það væri ekkert horft til þess í fjárlagafrumvarpinu. Það er nú þannig, ef ég man rétt, að ég held að það séu 3,9 milljarðar einmitt settir inn í þann lið í frumvarpinu, þ.e. til að mæta öldrun þjóðarinnar. Þessi umræða hefur farið fram í fjárlaganefndinni einmitt þegar þessi liður var skorinn niður fyrir stuttu síðan en það er ánægjulegt að sjá að hann er kominn aftur inn. Svo talar hann hér um sanngjarnt gjald af sjávarauðlindinni og ég veit að Flokkur fólksins hefur haft sterkar skoðanir á þessu og ég hlakka bara til þeirrar vinnu, heildarendurskoðunar sem boðuð er hér á þessum þingvetri. En hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér þetta sanngjarna gjald? Er flokkurinn að horfa til þess að það leggist jafnt á alla, bæði þá sem eru í aflamarkskerfinu, smábátasjómennina, krókaaflabátana, uppsjávarskipin og minni útgerðir? Hvernig sér hann fyrir sér þetta sanngjarna gjald af auðlindinni útfært?