154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:44]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið en ég get alveg tekið undir það sem hann segir hér varðandi heilbrigðiskerfið og þar er risaverkefni að koma því þannig fyrir að menn fái þá þjónustu sem óskað er eftir. Það kemur náttúrlega skýrt fram í þessu fjárlagafrumvarpi að það eru heilbrigðismálin sem eru að fá mestu hækkunina, 14 milljarða, 10 út af Landspítalanum. Þessi málaflokkur hefur hækkað um 50 milljarða síðan 2021, sem sýnir kannski áherslur þessarar ríkisstjórnar á akkúrat þennan málaflokk sem hv. þingmaður nefnir.

Mig langar í lokin aðeins að tala um þessa leigubremsu sem hv. þingmaður kom inn á áðan. Hefur hann engar áhyggjur af því varðandi leigubremsu í ástandi eins og það er núna þar sem einstaklingar hafa kannski keypt íbúð, húsnæðisverðið hækkar út af vaxtastiginu og það verður til þess að greiðslubyrðin er orðin svo langt yfir leiguþakinu að viðkomandi einstaklingar neyðist til að selja eignina og leigjendurnir missa þannig húsnæði? Þetta er bara svona pæling, mig langar að heyra aðeins hvar þingmaðurinn stendur í þessu.