154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ábending mín sneri fyrst og fremst að því að hagvöxtur á Íslandi hefur skipt lífskjörin í landinu gríðarlega miklu máli. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það hafa verið gerð mistök í hagsögunni og eftirlitið var ófullnægjandi í aðdraganda fjármálahrunsins. En ef við skoðum bara hagvöxt á mann á Íslandi og berum saman við aðrar þjóðir þá erum við að skapa gríðarlega mikil verðmæti. Það er mikil og stór spurning sem hér var í raun og veru velt upp, sem er: Hver er aðalástæðan fyrir velsæld sumra þjóða á meðan aðrar eru að ströggla? Það skiptir bara verulega miklu máli að reyna að nálgast svar við þessari spurningu og ég held að svarið liggi m.a. í stjórnkerfunum, í þeim grunngildum sem búa að baki efnahagsumhverfinu í viðkomandi löndum. Við sjáum það að ríkar þjóðir spilla auðlindum sínum og veik stjórnkerfi fara illa með möguleika. Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir, það eru ekki stjórnmálamennirnir sem bjuggu til alla velsældina, það er fólkið í landinu. En okkar hlutverk er að ryðja brautina og skapa skilyrði til þess að tækifærin séu nýtt og fyrir það viljum við standa í Sjálfstæðisflokknum. Þannig að það er fólkið í landinu sem hefur drifið þetta áfram og aðalatriðið er að það sé ekki kæft í fæðingu þegar fólk reynir að láta til sín taka. (Forseti hringir.) Og ég verð að segja að mér finnst þetta svona frekar fátæklegar hugmyndir til breytinga á frumvarpinu að sækja 15 milljarða (Forseti hringir.) og eyða þeim öllum jafnóðum en tala síðan um mikilvægi þess að ríkisfjármálin leggi eitthvað af mörkum í baráttunni við verðbólgu.