154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:18]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Rétt aðeins varðandi samninga þá liggur það fyrir í framlögum og fjárveitingum til Samtakanna '78 að engin breyting er að verða þar á. Samningurinn er einfaldlega að renna sitt skeið og það er verið að huga að endurnýjun hans. Þetta eru allt atriði sem koma fram og auðvitað getur það verið rétt hjá hv. þingmanni að það má fara nánar út í greiningar og greinargerð með fylgiriti og skoða einstaka hluti. En það sem fjárlagafrumvarpið er eingöngu að nefna, 15 milljónirnar, er af því að á því verður breyting, það er verið að árétta að þetta sé tímabundið eins og hv. þingmaður veit, það var tímabundið.

En aftur að stöðugleikanum. Það er gott og blessað að ríkið geti haft kristalkúlu og rýnt í framtíðinni og haldið sig við það. Þegar ytri áföll verða eða heimsfaraldur sem lokar öllu, setur hagkerfið og efnahagslífið algerlega á hvolf, þá verður ríkið auðvitað að breyta um kúrs og takast á við það verkefni. Og það skiptir máli hverjir stjórna og það skiptir máli hvernig það var gert. Í heimsfaraldrinum leysti ríkisstjórnin vel úr því verkefni og nú er verkefnið að glíma við afleiðingarnar. Já, það er verðbólga, það er hátt vaxtastig, það þarf að vinna á hækkandi skuldum út af heimsfaraldrinum og ná tökum á því og það er það sem þetta fjárlagafrumvarp segir. (Forseti hringir.) Við erum á réttri leið. Þess vegna er ég ekki enn þá fullviss um hvað það er sem hv. þingmaður meinar þegar hann segir: Stöðugleiki, stöðugleiki.