154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Nei, við erum ekki að fara í rétta átt. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er ekki að fara í rétta átt í loftslagsmálum. Hér er verið að draga saman bein framlög til umhverfis- og orkumála um 1,7 milljarða. Það er verið að minnka ívilnun til kaupa á hreinorkubílum um 4,8 milljarða án þess að sá peningur sé síðan notaður í eitthvað annað. Það er alveg eðlilegt að hætta að styrkja fólk hægri vinstri til að kaupa Teslur og nýta peninginn í eitthvað sem skilar meiri samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. En það er ekki gert. Það er verið að klípa 6,5 milljarða frá þessum málaflokki á sama tíma og ríkisstjórnin er einmitt ekki að stefna í rétta átt. Það var aukning, losun jókst á síðustu þremur árum, á síðasta ári stóð hún í stað. Losun gróðurhúsalofttegunda á að vera að dragast saman á hverju einasta ári en samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Umhverfisstofnunar þá er ríkisstjórnin hálfdrættingur á við það sem hún segist ætla að vera, 24% samdráttur í losun fyrir árið 2030 er það sem stefnir í, 55% er það sem þau segjast ætla að gera.

Frú forseti. Nei, við erum ekki að stefna í rétta átt. En ég ætlaði nú ekki að orðlengja um þetta. Mig langaði að spyrja um það sem hv. þingmaður vék hér að, framlagi til endurgreiðslna til sveitarfélaga vegna þjónustu sem þau veita samkvæmt 15. gr. félagsþjónustulaga, útlendingur í neyð, minnir mig að við köllum það ákvæði. Hér er væntanlega eitthvað sem snertir við þjónustusvipta flóttafólkinu sem ríkisstjórnin henti á götuna í sumar. Það gerðist fyrir um sex vikum og þá sagðist hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra ætla að taka eitthvert samtal við fólk til að leysa þetta. Ég hef það frá félagasamtökum sem eru að halda þessu fólki af götunni, sem eru að sjá til þess að það hafi í sig og á, að það sofi ekki í gjótum í Öskjuhlíðinni núna þegar komið er næturfrost, að ekkert hafi heyrst frá ráðherra. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann: Á að gera eitthvað fyrir þennan hóp? (Forseti hringir.) Ef hún hefur ekki svörin þá er spurning hvort ég geti beðið hana um að koma því til ráðherra að svara símanum þegar félagasamtök sem eru að hjálpa þessu fólki reyna að ná í hann.