154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örfáar athugasemdir. Ég vil byrja á því að ræða aðeins um afkomuna og vil halda til haga því að frumjöfnuðurinn, sem hv. þingmaður sagði að það væri bara sjálfsagt mál að væri jákvæður, nema hvað, hann er bara alls ekkert jákvæður hjá öðrum þjóðum og að uppistöðu til eru þjóðir með neikvæðan frumjöfnuð. Við náðum jákvæðum frumjöfnuði í fyrra og hann styrkist enn á þessu ári og áfram. Og þó að þetta kunni að þykja vera eitthvað flókin hagstærð þá er þetta samt sem áður mjög einföld stærð sem sýnir muninn á tekjum og gjöldum. Þetta er það sem ræður því hvort við höfum eitthvað aflögu til að standa undir lánum, svo dæmi sé tekið. Hallinn er nú bara sá sem stendur hér í fjárlagafrumvarpinu og ef Morgunblaðið birtir aðrar tölur þá eru þær bara rangar því að þetta er áætlaður halli samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, þ.e. 46 milljarða heildarhalli. En það má auðvitað til sanns vegar færa að það er nokkuð há fjárhæð.

Til þess að komast á, ja, hvað eigum við að segja — ef við ætlum að kafa dýpra í afkomu ríkissjóðs þá erum við, eins og ég hef verið að nefna, að sýna gríðarlega mikið gagnsæi umfram það sem flestar aðrar þjóðir gera með þeim reikningsskilastöðlum sem við notum og þá er ég ekki síst að vísa til þess að við erum að gjaldfæra ýmsa liði sem aðrir annars staðar ekki gjaldfæra, og þá er líka gott að skoða töfluviðauka fjárlagafrumvarpsins sem er aftast og á bls. 372 má sjá í töflu 2 hvernig sjóðstreymi ríkissjóðs er. Þar sjáum við að sjóðstreymið lagast mjög mikið á þessu ári. Ef við skoðum hreinan lánsfjárjöfnuð, sem er önnur svona hagfræðileg stærð, þá eru hlutirnir áfram að þróast í rétta átt. (Forseti hringir.) Þarna getum við kafað dýpra og skoðað sjóðstreymi hjá ríkissjóði og hvað gerist í raun og veru á bak við þessar hallatölur sem við erum að tala um (Forseti hringir.) í fjárþörf hjá ríkissjóði og þar eru hlutirnir allir að þróast í rétta átt.