154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Um margt erum við hv. þingmaður sammála. Ég verð þó að segja að mér finnst þetta slagorð, sem hljómar ágætlega — vinstri velferð, hægri hagstjórn — vera svolítil snákaolía. Hv. þingmaður verður aðeins að útskýra betur hvernig á að útfæra það. Hún kom ágætlega inn á það að henni hugnaðist ekki aukin skattheimta. Ég get tekið undir að aukinn skattur á almenning í landinu er ekki endilega góð leið við núverandi aðstæður og þingmaðurinn ræddi auðvitað útgerðina og fleiri sem gætu lagt meira af mörkum. Mig langar samt að spyrja hana hvort þetta eigi bara algerlega við um alla einstaklinga í landinu, hvort hún telji ekki að þeir sem hafa t.d. meiri hluta af öllum sínum tekjum af fjármagni og gríðarlega miklar tekjur gætu ekki einmitt lagt meira af mörkum og hvort það væri ekki skynsamlegt við núverandi aðstæður að sækja einhverjar tekjur af þeim sem eru mjög vel aflögufærir, styrkja velferðarkerfið og þjónustuna við einstaklinga í landinu þannig að kjarasamningarnir um áramótin muni ekki allir snúast um að sækja meira út úr launaliðnum. Væri það ekki einfaldlega nokkuð gáfuleg leið?

Mig langar aðeins að biðja hv. þingmann að dýpka fyrir okkur skilninginn á slagorðinu hægri hagstjórn, vinstri velferð.