154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var áhugaverður kafli í ræðunni þegar hv. þingmaður var að tala um hvar pólitíkin lægi hjá ráðuneytunum t.d. Hún liggur líka hérna hjá okkur þingmönnum. Í tvígang í ræðunni, og það er ekkert einsdæmi, talaði þingmaðurinn um að hún væri á móti flötu aðhaldi, hún væri á móti sameiningu tiltekinna skóla. Þingmenn stjórnarliðsins eru duglegir að tala um að þau séu á móti hinu og þessu en síðan munum við sjá við atkvæðagreiðslur að þeir greiða allir atkvæði með þessu. Þess vegna má auðvitað segja já, að pólitíkin liggi hjá ráðuneytum ef þingmenn láta ekki pólitíkina til sín taka.

Ég er hins vegar ánægður að hv. þingmaður hafi efasemdir um þessar tillögur ráðherra um að sameina skólann fyrir norðan vegna þess að einfaldlega hefur það gerst á síðustu 120 árum að hlutfall höfuðborgarsvæðisins hefur vaxið úr því að vera 11% og yfir í að vera 70%. Akureyrarbær hefur skroppið saman úr því að vera annar stærsti bær landsins yfir í að vera sá fimmti og innan skamms sá sjötti líklega. Þess vegna er það óskiljanlegt að byrja sameiningar og minnka valkosti úti í hinum dreifðu byggðum. Það hjálpar okkur ekkert þó að hv. þingmaður hafi bent á að það sé úthlutað fé þegar liggi fyrir hversu margir hafa innritað sig af því að það liggur fyrir og það eru orð skólameistara að uppsafnaður halli frá 2022 er til kominn vegna þess að það voru fleiri sem stóðust inntökupróf, komust inn í skólann og það fylgdi ekki fé með.

Spurning mín er einföld: Mun hv. þingmaður samþykkja þetta fjárlagafrumvarp ef það verður ekki tryggt meira fé í framhaldsskólana, m.a. til að tryggja þessa góðu skóla báða?