154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:14]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir ræðuna hér og ágætt að við séum að gefa okkur góðan tíma í að fara í gegnum fjárlögin og ekki veitir nú af. Þetta er svolítið endurtekið efni frá því fyrir ári. Það sem við erum að heyra frá alls konar hagaðilum er sama stef og fyrir ári. Ég var nú bara síðast rétt áðan að hlusta á viðtal í útvarpinu þar sem var verið að tala við fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni þar sem báðir voru sammála um það, þeir sem töluðu, að ekki væru stigin nægjanlega mikil skref og bentu á það sem við í Viðreisn höfum verið að tala um hér endalaust, þ.e. að þótt skuldahlutfall ríkissjóðs sé ekkert sérstaklega hátt þá borgum við alveg óheyrilega mikið af vöxtum.

Það sem mig langaði svona í fyrri atrennu til að spyrja hv. þingmann um er hversu veigamikið hlutverk þingmaðurinn telur að ríkisfjármálin hafi í því að ná niður verðbólgu. Ég spyr vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um það þannig að það sé hlutverk ríkissjóðs að þvælast ekki fyrir Seðlabankanum, hann orðaði það þannig á einum stað og á öðrum stað orðaði hann sömu hugsun með aðeins öðru orðalagi. Þetta hefur hæstv. forsætisráðherra líka sagt hér, bent á að það sé hlutverk Seðlabankans að berjast gegn verðbólgu og talar þá um lögin um Seðlabankann á meðan allir vita að þarna skiptir líka máli hvað aðilar vinnumarkaðarins semja um sín á milli og það hversu mikið aðhald eða aðhaldsleysi er í ríkisfjármálunum.

Mig langaði því að spyrja hv. þingmann um það hversu veigamikið hlutverk ríkisvaldið hefur, ríkisstjórnin, í gegnum fjárlög þegar kemur að því að berjast gegn verðbólgu.