154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég get ekki annað séð af lestri fjárlaga en að verið sé að draga úr fjármagni í menntakerfið. Mig langaði að gera það að helsta umræðuefni mínu hér í kvöld vegna þess að það er gríðarleg skammsýni í því að ákveða að skera niður í menntakerfinu. Tímabundnar skerðingar þar hafa nefnilega langtímaafleiðingar í okkar grunnkerfum og skólakerfið er þar fremst í flokki.

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga á líka að lækka framlög vegna námsstyrkja til stúdenta um tæplega 230 millj. kr. Í fjárlagafrumvarpinu er útskýrt að þetta sé vegna niðurfellingar hluta lána við námslok vegna fækkunar lánþega. En forseti, maður hlýtur að spyrja sig: Hvers vegna er lánþegum að fækka? Breytingar á námslánakerfinu 2020 höfðu það að markmiði að tryggja tækifæri til náms án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána og styrkja. Það vekur því furðu að færri séu að sækja í kerfi sem átti að hafa það að markmiði að létta undir með stúdentum og auka aðgengi að námi óháð efnahag. Þessi þróun hlýtur að vera vísbending um það að lagabreytingin frá árinu 2020 virkar ekki sem skyldi. Mögulega eru skilyrðin of þröng og aðstoðin þar af leiðandi ekki fullnægjandi til að ná tilsettum markmiðum. Í ályktun Landssambands íslenskra stúdenta kemur fram að 71% háskólanema á Íslandi vinnur með námi og hlutfallið er með því hæsta af þeim þjóðum sem taka þátt í evrópsku Eurostudent-könnuninni. Í sömu könnun kemur fram að 72% þeirra nema sem vinna með námi fullyrða að án vinnunnar gætu þeir ekki verið í námi. Landssamband íslenskra stúdenta telur niðurstöður könnunarinnar áfellisdóm á námslánakerfið og að þær dragi fram þann vanda sem ófullnægjandi framfærsla skapar.

Forseti. Það hefur langtímaafleiðingar að fjárfesta ekki í námsmönnum. Í stað niðurskurðar þarf aukið fjármagn til að auðvelda fólki að fara í nám og haldast í námi. Við þurfum að hækka framfærslu stúdenta. Við þurfum að breyta lánum í styrki í miklu meira mæli og við þurfum að tryggja að Menntasjóður námsmanna greiði fjárhagsaðstoðina út áður en námið hefst, í byrjun annarinnar en ekki þegar henni lýkur.

Í dag er staðan þannig að í stað þess að styðja við námsmenn sökkva stjórnvöld þeim í skuldafen. Í fyrsta lagi þurfa margir námsmenn að taka há námslán og í öðru lagi þurfa þeir að taka yfirdrátt með tilheyrandi háum vöxtum til að halda sér á floti áður en námslánið er greitt út. Í þriðja lagi koma sumir námsmenn út á vinnumarkaðinn með gríðarlegar skuldir á bakinu. Námslánakerfið er þannig upp sett að frekar en að greiða leið fólks að góðri menntun og þeim tækifærum sem í menntuninni felast þá er verið að skapa hindranir fyrir fólk. Við hljótum að vilja að ungt fólk stígi sín fyrstu skref á vinnumarkaði í fyrsta lagi ekki bugað af álagi og mikilli streitu sökum mikillar vinnu meðfram námi til að geta náð endum saman. Í öðru lagi hljótum við að sjá þá fjárfestingu sem felst í því að ungt fólk komi út á vinnumarkaðinn raunverulega frjálst til að velja sér starf út frá ástríðu og tilgangi frekar en að taka ákvörðun byggða á þeirri efnahagslegu neyð sem fylgir því að vera með risastórt lán á bakinu. Við hljótum að sjá þetta sem fjárfestingu í framtíðinni sem skilar sér margfalt til baka.

Hreyfanleiki og sveigjanleiki á vinnumarkaði hafa aldrei verið mikilvægari en núna. Fram undan eru gríðarlegar samfélagsbreytingar — fram undan? Breytingarnar eru bara að raungerast núna og við erum óundirbúin. Í sjálfvirknivæddu samfélagi mun fjöldi starfa hverfa og ný skapast. Í slíkum aðstæðum skiptir menntun meira máli en nokkru sinni fyrr. Það er algerlega nauðsynlegt að líta á menntakerfið okkar alveg frá grunnskóla og upp í háskóla með gleraugum framtíðarinnar. Gríðarlegar tæknibreytingar og sjálfvirknivæðing starfa kallar á að fólk geti endurmenntað sig og sinnt þeim nýju störfum sem munu standa til boða. Við verðum að tryggja að fólk á öllum aldri geti endurmenntað sig óháð aðstæðum, efnahag og fyrri menntun. Það verður að vera raunverulegur valmöguleiki fyrir alla, en svo er ekki raunin í dag. Til þess að breyta þessu þarf fjármagn, bjargir og raunverulegan vilja til að gera það. Ef við gerum þetta ekki munum við skilja fullt af fólki eftir.

Samhliða því að skapa fleiri tækifæri til náms þarf að efla nýsköpun ef Ísland á að verða framtíðarsamfélag. Ég veit að flestir hér inni eru sammála mér um að það þurfi nýsköpun á öllum sviðum til að skapa tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir. Þess vegna vil ég vekja athygli á því að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 er dregið úr fjármagni til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina um 11%, eða 3,7 milljarða alls. Ég ímynda mér að þetta sé að einhverju leyti út af auknum styrkjum vegna Covid sem verið er að draga til baka, en það skiptir ekki máli. Við eigum að auka við nýsköpun en ekki draga úr.

Ef við tökum ekki framtíðina inn í myndina í fjárlögum núna mun það koma í bakið á okkur. Við erum ekki undirbúin fyrir þær gríðarlegu samfélagsbreytingar sem eru þegar hafnar og ef við erum óundirbúin, eins og við erum í dag, er svo mikil hætta á aukinni stéttaskiptingu, langtímaatvinnuleysi og aukinni jaðarsetningu. Við verðum að tryggja að við séum að taka alla með okkur, að allt samfélagið hafi tækifæri á að njóta góðs af tækniframförum og samfélagslegum breytingum sem eru að eiga sér stað. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir þeim breytingum sem eru í vændum. Þar endurspeglast lítill skilningur á því sem fram undan er. Það er ekki verið að fjárfesta í nýsköpun, ekki verið að fjárfesta í fólki og það er ekki verið að fjárfesta í menntakerfinu til lengri tíma. Menntun og nýsköpun er undirstaða framfara og til að tryggja framfarir til framtíðar þarf menntakerfið að vera búið undir þær samfélagslegu breytingar sem fram undan eru. Það gerum við með því að auka sveigjanleika og frjálsræði í menntakerfinu, gera nemendum kleift að sækja nám án þess að skuldsetja sig upp fyrir haus, styðja við starfsfólk skóla og auka áherslu á færni og nýsköpun sem nýtist í sjálfvirknivæddu samfélagi á upplýsingaöld. Sem dæmi þá eigum við frábæra aðalnámskrá. Það er margt þar inni sem er ótrúlega gott, en svo þegar kemur að innleiðingunni er því einhvern veginn hent yfir á kennara að sjá um hana, án fullnægjandi fjármagns og fullnægjandi leiðsagnar. Það er engin heildarsýn og ekkert sem grípur skóla, kennara og stjórnendur og aðstoðar við innleiðingu. Þar af leiðandi gengur skiljanlega illa að innleiða þetta, en það gerist allt of oft að fjármagn og skipulag fylgi ekki þegar innleiða á nýja hugmyndafræði, ný lög og annað.

Forseti. Í skýrslu forsætisráðherra um áætlaðan samfélagslegan kostnað fátæktar, sem er skýrsla sem við Píratar með stuðningi annarra þingflokka báðum um, kemur fram undir mögulegum aðgerðum til að sporna við fátækt, að allar aðgerðir sem efla til að mynda fjárfestingu í menntun, heilsu og félagslegri þjónustu eru mikilvægar. Hvers vegna endurspeglast þetta ekki í fjárlögunum? Skammsýnin er gríðarleg.

Í skýrslu forsætisráðherra kemur fram að fátækt, af því að þarna er sérstaklega verið að fjalla um áætlaðan samfélagslegan kostnað fátæktar, kostar samfélagið á bilinu 31–92 milljarða á ári. Það kemur líka fram í skýrslunni að þetta sé áætlaður kostnaður byggður á takmörkuðum gögnum og er niðurstaðan í raun að miklu leyti að þetta þurfi að rannsaka frekar og afla frekari gagna. Gott og vel, þetta eru samt gígantískar upphæðir. Þarna er einhver upphæð eða mælieining sem nær samt engan veginn utan um þá mannlegu þjáningu sem stafar af því að fátækt er viðhaldið. Stjórnvöld eru í raun að taka meðvitaða ákvörðun um að hópur fólks sé jaðarsettur og skilinn eftir, hafi ekki aðgang að sömu tækifærum og aðrir sem eru betur settir efnahagslega. Það er gríðarlega sorglegt og ekki eitthvað sem verið er að takast á við í þessu fjárlagafrumvarpi, ég sé það ár eftir ár þegar að því kemur að uppræta fátækt. Ef tekin væri sameiginleg ákvörðun um að fara í raunverulegt átak þá gætum við gert það, þá værum við ekki að bara að skoða einhvern kostnað núna heldur værum við í raun að skoða sparnaðinn sem yrði í hinum mismunandi kerfum og hver kostnaðurinn yrði til langs tíma. Það var ástæðan fyrir því að við báðum um þessa skýrslu, einmitt til að fá hugmynd um það hvernig við getum skoðað heildarkostnað til langs tíma heildrænt yfir öll kerfin okkar. Það er alveg hægt að gera það og við ættum í miklu meira mæli að taka ákvarðanir og skrifa fjárlög út frá þessum forsendum. Það er eitthvað mikið að í samfélagi sem viðheldur hugmyndafræði sem neitar að horfast í augu við stærstu áskoranir samfélagsins.

Forseti. Í lokin langar mig að deila einni hugleiðingu, nokkuð sem ég hef verið að pæla í og hugsa um út af því að hæstv. fjármálaráðherra og hans flokkur eiga það til að tala mikið um stöðugleika. Ég tók sérstaklega eftir því á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í fyrra að hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, talaði mikið um stöðugleikann og að tekist hefði að skapa pólitískan stöðugleika sem skipti öllu máli þegar takast þarf á við flókin og vandasöm verkefni og hlutverk ríkisstjórnarinnar væri enn að varðveita stöðugleika og stjórnfestu. Ég velti því mikið fyrir mér hvað þetta orð þýðir, stöðugleiki. Ég held að ég skilji að vissu leyti hvað það þýðir fyrir Sjálfstæðismenn, en mér finnst mikilvægt að hugsa um orðið og hvað það ætti að þýða í hugum fólks, hvað það þýðir í mínum huga, því að í stöðugleika felst geta til að hugsa heildrænt og sjá auðinn sem felst í fólkinu í landinu, fjárfestinguna sem felst í því að leysa fólk úr fangelsi skerðinga og takmarkana almannatryggingakerfisins, bera virðingu fyrir leikreglum lýðræðisins og ef þær eru brotnar að axla ábyrgð og stíga niður — það er stöðugleiki. Það er hugrekkið sem þarf til að takast á við loftslagsmálin af alvöru, framsýni til að sjá fjárfestingu og tækifæri frekar en kostnað og hindranir, það er stöðugleiki. Að vinda ofan af gegndarlausri nýfrjálshyggju sem hefur leitt af sér gríðarlega misskiptingu, efnishyggju, umhverfis- og heilsutjón, tilgangsleysi, tengslarof og sundrung, það er stöðugleikinn sem í því felst að taka þessi skref. Að efla traust á stjórnmálum, að aðgerðir og fjármagn fylgi orðum, það er stöðugleiki. Heiðarleiki, réttsýni og hugrekki til að framkvæma.

Forseti. Stöðugleiki er ekki stöðnun. Stöðnun er dautt ástand. Stöðugleiki felst í getu okkar til að horfa fram á við og þróast í takti við þarfir samfélagsins hverju sinni og því miður endurspeglast þessi stöðugleiki ekki í þessu fjárlagafrumvarpi.