154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágætisræðu. Hún snerist annars vegar um menntun og hins vegar um fátækt, ójöfnuð og jöfnuð. Mig langaði í fyrra andsvari aðeins að staldra við menntunina.

Eins og kom réttilega fram þá er háskólanemum á Íslandi ekki búin neitt sérstök skilyrði, þrátt fyrir að svo margar viðvörunarbjöllur hafi hringt á undanförnum árum. Það eru t.d. miklu færri sem stunda háskólanám hér heldur en annars staðar. Við sjáum líka, og fengum það staðfest við stefnuræðu forsætisráðherra, að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra leggur núna til atlögu að því að sameina framhaldsskóla undir því yfirskini að hann þurfi að ná fram rekstrarhagkvæmni. Þetta er einhver skammtímalausn sem maður ímyndar sér að geti komið harkalega í bakið á okkur og afleiðingin verði meiri einsleitni og minna spennandi umhverfi, af því að ég reikna með að eftir því sem framhaldsskólanemum er boðið upp á skemmtilegra, betra og fjölbreyttara nám séu þeir líklegri til að halda áfram námi. Það er líka staðreynd að við búum í risastóru landi, en við erum fámenn þjóð og mjög langt frá mörkuðum. Þó að þessi grunnauðlindaframleiðsla okkar, sjávarútvegur og annað, hafi skilað okkur mikilli velmegun þá eru henni bara mikil takmörk sett andstætt því sem á t.d. við um nýsköpun og hugverkaiðnað, sem er óþrjótandi auðlind í sjálfu sér. Það er hægt að framleiða mikið magn vöru án þess að vera háður tilteknum fjölda handa og hægt er að koma vörunni á markað jafnvel á örskotsstundu ef varan er stafræn.

Ég spyr: Hvað heldur hv. þingmaður að valdi því að ríkisstjórnin hafi ekki framsýni til þess að leggja meiri metnað í þá hluti sem eru svo augljóslega besta leið okkar til að (Forseti hringir.) skapa mikil verðmæti langt fram í tímann?