154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Þegar stórt er spurt. Ef ég svara þessu heiðarlega þá held ég að þetta snúist að miklu leyti um hugmyndafræði sem er orðin frekar úrelt og ég held að þetta sé skilningsleysi á þeim áskorunum sem við munum þurfa að horfast í augu við í þeim breytingum sem eru að eiga sér stað. Þetta er að gerast rosalega hratt og ég held að mismunandi hugmyndafræði og hvernig við lítum á og skiljum samfélagið hafi áhrif á vilja okkar eða getu til að horfa á samfélagið í heildarsamhengi þeirra breytinga, t.d. tæknibreytinga, sem eru að eiga sér stað. Þetta snýst líka um skilning á tæknibreytingum og þeim tækifærum sem felast í þeim

Það sem gerist rosalega oft er að stjórnvöld eru ofboðslega mikið í því að bregðast við og verið er að bregðast við án heildarsýnar. Það hefur líka að miklu leyti með stjórnkerfið og pólitíkina að gera, það eru allir í sitthvoru horninu að vinna í sínum málaflokkum og enginn stígur upp og horfir á stóru myndina. Það er eitthvað sem mér hefur alltaf þótt skorta í pólitíkinni og stjórnkerfinu.

Ég held að þetta séu skammtímahagsmunir, það er stutta svarið. Ég held að verið sé að taka skammtímahagsmuni fram yfir langtímahagsmuni, sem tengist því líka að fólk er kannski bara að passa upp á að vera endurkjörið eftir fjögur ár frekar en að líta til þess hvað er samfélaginu og almenningi fyrir bestu til langs tíma.