154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:48]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég var mjög skýr í ræðu minni þegar ég sagði að ég gæti ekki séð annað af lestri fjárlagafrumvarpsins en að það væri verið að draga úr fjármagni til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina um 11%, eða um 3,7 milljarða alls. Þetta sagði ég skýrt og líka að það væri örugglega hægt að rekja þetta að einhverju leyti til þess að þarna væri kannski verið að draga styrkaukningu til baka sem kom til vegna Covid. Það var skýring sem mér fannst líkleg fyrir þessa upphæð, bara svo það sé sagt. Ég ætla ekkert að draga úr því að miklar breytingar hafa orðið í fjárframlögum til nýsköpunar og það er af hinu góða. Það er frábært og ég get hrósað því. Ég set þetta líka dálítið í samhengi við það að þegar kemur að rannsóknum innan menntakerfisins og nýsköpun innan þess — ég var að setja menntakerfið í samhengi við framtíðaráskoranir, breytingar á vinnumarkaði, sjálfvirknivæðingu og annað. Þar erum við óundirbúin. Hluti af tali okkar um nýsköpun snýr líka að því að við þurfum dálítið að taka nýsköpunina inn í kerfin okkar, þá er ég að tala um menntakerfið, heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið, meira að segja hagkerfið okkar. Það vantar smá nýsköpun þarna. Við þurfum kannski að endurhugsa hagkerfið sem við búum við, í staðinn fyrir að setja svona mikinn fókus á endalausan hagvöxt að skoða eitthvað annað, eins og velsældarvísana sem er verið að vinna að í samhengi við velsældarhagkerfið. Þetta var sú heildarmynd sem ég var að draga upp í ræðu minni um nýsköpun og menntun og þörf okkar á að tryggja að kerfin okkar uppfærist í takt við samfélags- og tæknibreytingar sem eru að eiga sér stað, þannig að við getum stigið sterk inn í framtíðina. (Forseti hringir.) Það þarfnast fjármagns og bjarga sem ég sé ekki að verið sé að leggja til í þessum fjárlögum.