135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

útlendingar og réttarstaða þeirra.

247. mál
[14:14]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir árnaðaróskir síðasta ræðumanns til fyrsta flutningsmanns málsins, sérstaklega af því tilefni að hér er um að ræða frumraun á Alþingi af hálfu innflytjenda. Það eru vissulega tímamót sem eru eftirminnileg og gaman að vera þátttakandi í.

Ég er einn af meðflutningsmönnum málsins og þakka fyrir að vera boðið að vera þar á blaði. Ég er sérstaklega ánægður með að hafa tækifæri til að flytja tillögu til breytinga á þeirri illræmdu 24 ára reglu sem tekin var upp á sínum tíma, líklega 2002. Þá var hún strax umdeild og ég studdi hana ekki þótt ég væri þá í stjórnarliði. Ekki hefur afstaða mín til þessa vonda ákvæðis breyst frá þeim tíma.

Fleiri ákvæði eru í frumvarpinu sem ég tel horfa til mikilla bóta. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að binda atvinnuréttindi hér á landi við einstaklinginn sem í hlut á en ekki við atvinnufyrirtæki. Við höfum af því töluverða reynslu á síðustu árum hvernig til hefur tekist í þessu tilviki og vissulega hafa langflestir atvinnurekendur farið vel með þá stöðu sem gildandi lagaumhverfi veitir þeim. Því miður eru allt of mikil brögð að því að atvinnurekendur hafi nýtt sér aðstöðuna til að hlunnfara starfsmenn sem hjá þeim eru á grundvelli atvinnuleyfisins, ýmist með því að hlunnfara þá í launum eða aðbúnaði eða uppihaldskostnaði hér á landi.

Það er algjörlega óásættanlegt að Íslendingar eða útlendingar fari svo með fólkið sem hjá því starfar að á því sé brotinn réttur með þeim hætti sem við þekkjum. Allt of mörg dæmi eru um slíkt hér á landi á síðustu árum og ég vil undirstrika andstöðu mína og Frjálslynda flokksins við það, virðulegi forseti.

Þá finnst mér einnig horfa til bóta að rýmka ákvæði fyrir afkomendur útlendinga sem hér hafa dvalist frá barnsaldri þegar þeir verða 18 ára gamlir og rýmka þau ákvæði til þess að þeir geti áfram dvalið hér án þess að þurfa að uppfylla öll þau skilyrði sem nú þarf til að hafa sjálfstætt leyfi við þessi aldursmörk. Það er sanngirnismál að ganga það skref sem lagt er til í frumvarpinu og ég vænti þess að það hljóti góðar undirtektir í þingnefnd.

Rétt er að fara aðeins yfir málin til að taka af allan vafa í þeim efnum. Þetta eru viðkvæm mál sem þróast hafa á síðustu árum með miklum hraða vegna mikils innflutnings útlendinga á mjög stuttum tíma. Þau ákvæði sem stuðst er við í EES-samningnum og breyttu gildandi lagafyrirkomulagi eru að mörgu leyti í frjálsræðisátt og í samræmi við stefnu þeirra stjórnmálaflokka sem kenna sig við frjálslynda umbótastjórnmálastefnu.

Hins vegar verður að gæta að meðalhófi í því eins og öllu öðru. Margir hafa flust hingað vegna atvinnu á mjög stuttum tíma og við þannig aðstæður geta komið upp vandamál. Það er fyrst og fremst vegna þess að íslenska stjórnkerfið er vanbúið til að takast á við hraða breytingu og líka vegna þess, eins og komið hefur upp, að atvinnurekendur hafa nýtt sér aðstæður til þess að hlunnfara þá sem hjá þeim starfa. Það hefur áhrif á kjör hinna erlendu starfsmanna og aðbúnað og það hefur líka áhrif á kjör annarra sem eru á vinnumarkaði.

Þegar við búum við að heildarlaun eru nokkuð fjarri umsömdum launum og hver starfsmaður sækir sér drjúgan hluta af kaupinu með umsömdum launum yfir lágmarkslaunum, er hætt við að tækifæri skapist fyrir atvinnurekendur að lækka launakostnaðinn. Greidd laun hvers starfsmanns eru þá lækkuð úr því sem verið hefur á markaði niður í umsamin lágmarkslaun. Á þessu hafa verið nokkur brögð og þess vegna hefur íslenska verkalýðshreyfingin tekið við sér og leitast nú við að ná kjarasamningum og samningum við stjórnvöld sem koma í veg fyrir, eftir því sem hægt er, að almennt launastig lækki í einstökum atvinnugreinum hér á landi. Ég vænti þess að allir séu sammála um að afar óheppilegt sé að hafa glufur eins og þær sem verið hafa í kerfinu.

Virðulegi forseti. Miklum fjölda útlendinga á skömmum tíma fylgja líka ýmis vandamál sem er ótengt atvinnu. Eitt af því sem töluvert hefur verið rætt um á undanförnum mánuðum er hvaða áhrif þeir hafa á íslenskt þjóðfélag. Víst er að dæmi eru um áhrif á báða vegu. Áhrifin eru til góðs að mörgu leyti vegna þess að hingað koma útlendingar og aðstoða okkur við að hrinda í framkvæmd verkum, vinna störf eða veita þjónustu sem annars væri síður hægt að veita vegna skorts á mannafla. Þeir leggja því sitt af mörkum til hagvaxtar og verðmætasköpunar í þjóðfélaginu.

Þau áhrif geta líka að mörgu leyti verið misjöfn eða óþægileg fyrir almenning vegna þess að í störfunum er stundum fólk sem ekki talar íslensku til jafns við þá sem búa í íslensku málsamfélagi. Margir í íslensku málsamfélagi eru ekki vel að sér í erlendum tungumálum. Það skapar óþægindi þegar slíkar aðstæður koma upp. Við þekkjum það frá strætisvögnum eða veitingahúsum eða slíku að geta stundum ekki talað íslensku. Við þurfum að nota erlent tungumál í samskiptum við þann sem veitir þjónustuna.

Mér finnst eðlilegt að fólk geri athugasemdir við það. Mér finnst líka eðlilegt að Íslendingar geri kröfur til þess að geta notað tungumál sitt í daglegum samskiptum hér á landi. Þess vegna stendur það upp á okkur að sjá til þess að þeir sem hingað koma geti sem fyrst og sem best lært íslensku. Nauðsynlegt er að hafa framboð af námsefni og fjármuni á fjárlögum til þess að búa til námsefni og gera útlendingunum kleift að stunda íslenskunámið. Það er lykilatriði til framtíðar litið að við stöndum vel að þeim málum. Því þurfum við, og kannski er það bara pólitísk afstaða mín, að leggja mikið upp úr því að viðhalda íslenskri tungu.

Ég er ekki mjög hrifinn af því að vera með tvítyngt samfélag. Það er ekki endilega slæmt en ég vil frekar viðhalda íslensku samfélagi eftir því sem við getum en það er fyrst og fremst grundvallað á íslensku tungumáli. Aðrir geta haft önnur sjónarmið hvað það varðar og við því er ekkert að segja. Þau sjónarmið eiga auðvitað fullan rétt á sér eins og mitt.

Ég hef því miður orðið var við neikvæða umræðu um útlendinga í kjölfar umfjöllunar í fjölmiðlum um afbrot og jafnvel mjög alvarleg afbrot. Ég dreg ekkert úr því að þeir sem slík afbrot fremja eiga auðvitað að sæta ábyrgð og hljóta þunga refsingu fyrir afbrot sín, hvort sem þeir eru Íslendingar eða útlendingar. Ég vil hins vegar gera alvarlegar athugasemdir við að umræðan fari fram á þeim nótum að líkur á afbrotum séu tengdar þjóðerni manna. Slík umræða hefur farið mjög fyrir brjóstið á mér að undanförnu og ég mótmæli henni harðlega þangað til að annað kemur í ljós sem rekur það ofan í mig nauðugan. Ég verð þá að kyngja því ef slíkar upplýsingar eru til og menn geta borið þær fram.

Ég held því þó fram að hingað til hafi ekkert komið fram af beinhörðum staðreyndum eða upplýsingum sem rökstyðji að aukin tíðni afbrota eða aukin tíðni grófra afbrota hafi fylgt fjölgun útlendinga hér á landi. Þær upplýsingar sem ég hef séð, og reynt að afla mér um það mál, staðfesta það sem ég held fram í þessum efnum.

Ef mikið er talað um þá staðreynd að margir útlendingar eru hér gæti það leitt til þess að fólk byggi við minna öryggi í íslensku þjóðfélagi eða að konur ættu að óttast meira um sinn hag en áður var. Ég held að það séu ranghugmyndir sem byggðar eru á misskilningi og að kveða eigi þær niður með því að draga fram þær upplýsingar sem réttastar eru. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á atriði sem ég held að rétt sé að undirstrika rækilega en það afsannar að mínu viti sambandið á milli þjóðernis og afbrota. Tölur sem fyrir liggja sýna að fleiri erlendar konur hingað giftar hafa leitað til Stígamóta en sem nemur hlutfalli þeirra af mannfjölda.

Ég vil ekki halda fram að það sanni það að Íslendingar séu líklegri afbrotamenn en aðrir, svo ég snúi málinu við. Það sannar einfaldlega bara ekki neitt. Það segir okkur kannski, og sérstaklega þeim sem halda hinu fram, að þetta sé ekki svona. Það eru tvær hliðar á öllum málum og við skulum halda fram þeirri hlið að meðhöndla hvern mann sem einstakling, ekki sem Íslending eða útlending, karl eða konu, heldur sem einstakling. Þannig eigum við að starfa og hugsa og þannig eiga stjórnmálamenn að tala, að undirstrika réttindi einstaklingsins og ábyrgð hans. Þeir eiga að grundvalla stjórnmálaframsetningu sína á virðingu og umburðarlyndi við einstaklinginn eins og fram hefur komið í opinberri umræðu, svo ég undirstriki það.

Virðulegi forseti. Ég vildi fara rækilega yfir þessi mál til þess að ekki færi á milli mála hver afstaða mín eða flokks míns væri í þessum efnum. Aðrar raddir sem uppi kunna að vera eru auðvitað á ábyrgð þeirra sem þær setja fram. Það liggur þá fyrir hvað minn flokkur stendur fyrir og tekur undir í þessum efnum.