137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal hreinskilnislega viðurkenna að hv. þm. Ólöf Nordal setur mig í svolítil vandræði. Ef átt er við það að allar þær ríkisstofnanir sem við höfum núna tekið að okkur, allt bankakerfið, helmingurinn af atvinnulífinu teljist opinberir starfsmenn þá er það þannig og þá skulum við viðurkenna að um er að ræða verulega fjölgun. Við skulum vona að við komum hjólunum í gang þannig að þessi fyrirtæki verði ekki á vegum opinberra aðila um aldur og ævi og það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að koma þeim aftur til einkaaðila. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu. Það er reiknað með því að fyrirtækin verði áfram einkavædd og í fullri samkeppni. Það hefur aldrei hvarflað annað að mér.

Það þýðir ekki að ég telji að allir bankarnir (Gripið fram í.) eigi að vera einkavæddir. Ég er enn þá þeirrar skoðunar sem ég var þegar menn seldu bankana á sínum tíma að þeir hefðu betur haldið 30% af þeim eftir eða einum þeirra, og hef þá skoðun enn þá, bara til þess að vera á markaðnum til þess að hindra að það gerist svipaðir hlutir og gerðust þá í því æði sem þar greip um sig.

Þegar ég tala um opinbera starfsmenn þá er ég að tala um þá í hefðbundinni merkingu (Forseti hringir.) og þeir sem hafa tekið samninga samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna munu ekki verða ósnortnir í framtíðinni.