137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[18:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svör hans svo langt sem þau náðu og vænti þess að hann svari í seinna andsvari því sem spurt var um skattþrepin.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það þarf að beita meiri aga í meðferð fjármuna ríkisins á fjárlögum og menn geta ekki skotið sér endalaust undan því að ekki hafi verið úthlutað nóg. Upphæðin sem stofnanir fá er upphæðin sem heimilt er að eyða, annað er brot á lögum. Menn geta talað um breytt vinnubrögð en ef menn breyta engu í vinnubrögðum stoðar lítt að ræða þau, verkin verða að fylgja orðunum. Ef menn ætla að breyta vinnubrögðum, sem ég hef margoft heyrt ríkisstjórnina segja að hún ætli að gera, þá verður hún að sýna það í verki en hún hefur lítið gert af því. Eitt er að segja og annað að gera.

Ég hlakka til að heyra seinna svar hv. þingmanns um skattþrepin.