137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[19:51]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram um frumvarp til laga, stjórnarfrumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur, hefur verið svolítið úti um víðan völl af þeirri einföldu ástæðu að löggjafarvaldið hefur sýnt fádæma getuleysi varðandi það að breyta þeim stjórnarskipunarlögum sem þjóðin býr við. Ekki veit ég af hverju þetta getuleysi stafar nema ef vera kynni af því að menn hafi verið ófúsir að breyta stjórnarskrá sem kallar á að þingkosningar fari fram. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að þeim sem hafa völdin hverju sinni sé mjög óljúft að raska því blíða ástandi og leita til dyntóttrar þjóðar sem gæti haft allt aðrar meiningar, kannski nokkrum vikum eftir að hafa kosið valdhafana í sína háu ráðherrastóla.

Hvað sem því líður þá liggur hér frammi ákveðið frumvarp sem í raun er eins og klæðskerasaumað utan um þarfir ríkisstjórnarinnar núna í augnablikinu. Þetta frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur ætti að heita frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna samnings um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í þessu frumvarpi er það lagt til að eina leiðin til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram sé sú leið að þingsályktunartillaga verði samþykkt í þá veru, þ.e. með meiri hluta á Alþingi, að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram. Það vantar dálítið mikilvægan póst í þetta frumvarp að mínu viti því að hér vantar sjálfa heimildina til þjóðarinnar að efna sjálf til þjóðaratkvæðagreiðslu og það má líka færa gild rök fyrir því að hér vanti heimild fyrir minni hluta þingmanna til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem þessi minni hluti telur mikilsverð.

Mér finnst það skjóta skökku við að miðað við að við búum sameiginlega að þeirri lýðræðislegu hugmynd að vald löggjafarþingsins sé komið frá þjóðinni, að við séum fulltrúar þjóðarinnar, þá finnst mér skjóta skökku við að við skulum ekki taka með í reikninginn að þjóðin geti átt rétt á því að efna til atkvæðagreiðslu um mál sem hún sjálf eða þá fulltrúar hennar telja sérstaklega mikilsverð nema þá fulltrúar meiri hluta á þingi. Ég sé það ekki alveg í spilunum að þingmeirihluti efni til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem þessi sami þingmeirihluti er mjög farsællega sammála um að sé hið besta mál.

Því er ekki að leyna að ég sé marga galla á þessu stutta frumvarpi og fáa kosti. Helsti ókosturinn sem mér finnst koma fram í þessu frumvarpi er fullkomin fyrirlitning á því fólki sem við erum umbjóðendur fyrir, þ.e. á þjóðinni. Meira að segja er þessi fyrirlitning áréttuð með sérstakri málsgrein hérna, sem er hluti af 1. mgr: „og er niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu ráðgefandi“. Ef texti er einhvern tíma of langur og inniheldur óþarfa málalengingar er það í þessu tilviki því það veit hvert mannsbarn, vænti ég, að til þess að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu geti verið bindandi þarf að breyta stjórnarskránni. Það þarf ekki lögfræðinga til að segja okkur þetta. Hins vegar hygg ég að réttlætisvitund bæði þjóðarinnar og flestra annarra heldur en þá hugsanlega þess ræðumanns sem talaði hér síðast á undan mér, sé eindregið í þá veru að hafi þjóðin komist að einhverri niðurstöðu, hver svo sem hún er, að þá sé þingið bundið af því að fara eftir þeirri niðurstöðu og ekki bundið af neinu öðru eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti á, sem sagt að vera bundinn af samvisku sinni sem stæði þá ofar þjóðarvilja.

Við í Borgarahreyfingunni höfðum veður af því að þetta vonda frumvarp væri í bígerð og hefði verið lengi í smíðum svo að við rákum af okkur slyðruorðið og settum saman með góðra manna hjálp frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur sem inniheldur þá pósta sem við teljum nauðsynlega til þess að um raunverulegt frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið að ræða en ekki bara frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna samnings Íslands og Evrópusambandsins sem er á óskalista ríkisstjórnarinnar, heldur væri nothæft í öllum tilvikum þegar að því kemur að það sé hald manna að þjóðaratkvæðagreiðsla geti höggvið á erfiðan vanda.

Það sem helst skilur með þessum frumvörpum er að í frumvarpi Borgarahreyfingarinnar er gert ráð fyrir því að þjóðin sjálf geti óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, og meira en óskað eftir henni, geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu með því að tíu prósent kosningarbærra manna fari fram á slíkt með undirskrift sinni.

Sömuleiðis er Alþingi Íslendinga sýnt það traust í þessu frumvarpi okkar að þar segir, með leyfi forseta:

„Einnig getur að lágmarki 1/3 hluti þingmanna krafist þess með þingsályktun að slík þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram.“

Það vantar enn fremur í þetta lagafrumvarp sem við ræðum nú ákvæði um og fyrirmæli um með hvaða hætti skuli kynna þjóðinni það mál sem lagt er fram til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í frumvarpi Borgarahreyfingarinnar er reiknað með að sett verði á laggirnar lítil stofnun, létt stofnun í þeim skilningi að starfsmannafjöldi gæti helgast af þeim verkefnum sem fyrir liggja, og heitir Lýðræðisstofa. Hún mundi starfa undir stjórn umboðsmanns Alþingis og hafa það verkefni að koma á hlutlausan hátt til skila til þjóðarinnar um hvaða spurningar sé að ræða í þjóðaratkvæðagreiðslu og helstu rök með og á móti.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að bera saman þessi frumvörp í smáatriðum. En það að liggja skuli fyrir þinginu tvö frumvörp um þjóðaratkvæðagreiðslur núna allt í einu er dálítið skondin uppákoma. Það frumvarp sem síðar var lagt fram, sem sagt 125. mál á þskj. 169, það mál sem er til umræðu núna, er klæðskerasaumað utan um atkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild án þess að til þurfi að koma breyting á stjórnarskrá með tilheyrandi þingkosningum á milli. Hitt frumvarpið er til komið vegna þess að það hefur, eins og ég gat um í upphafi míns máls, reynst löggjafarvaldinu ofviða að breyta stjórnarskrá Íslands til nútímahorfs og til þess að hún standist nútímakröfur svo að sett er undir þann leka með því að leggja fram frumvarp sem gæti dugað varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur um hvaða mál svo sem þær snúast, hvort þær snerust um Evrópusambandsaðild eða Icesave eða eitthvað enn annað, eitthvert deilumál sem rís á morgun má einu gilda.

Það er hörmulegt úr því að löggjafarvaldið hefur verið gersamlega ófært að finna út úr því hvernig það geti sett landinu ný stjórnarskipunarlög að ekki skuli hafa verið brugðið á það ráð að kalla saman stjórnlagaþing. Við í Borgarahreyfingunni erum mjög eindregið þeirrar skoðunar að stjórnlagaþing skuli kalla saman, því fyrr því betra, til þess að smíða þá stjórnarskrá sem þjóðin á skilið að búa við í stað þessa úrelta danska plaggs sem við búum við í dag.

Ef stjórnlagaþing verður kallað saman þarf — eins og ég heyrði einhvern kalla það í umræðum hér fyrr í dag um annað mál — þá þarf þingheimur að hugsa út fyrir boxið. Þá þarf að hugsa aðeins út fyrir kassann vegna þess að þær hugmyndir sem hafa verið á sveimi og eru ættaðar héðan úr þingsölum um hvernig þetta stjórnlagaþing færi fram eru út úr öllu korti hvað varðar bæði tímalengd sem menn ímynda sér að þetta þing þyrfti að taka, kostnað sem af því mundi hljótast og í stuttu máli sagt hljóma verstu hugmyndirnar eins og blautur draumur lögfræðistéttarinnar.

Það þarf ekki lögfræðinga til að setja okkar landi stjórnlög. Til þess þarf bara venjulegt fólk með fullu viti og það verk þarf ekki að vefjast fyrir neinum mánuðum eða jafnvel árum saman heldur er hægt að leita í smiðju þeirra þjóða sem lengra eru á veg komnar en við í þeim efnum og búa við nútímalegri stjórnarskipunarlög og læra af þeim hvernig maður setur saman stjórnarskrá sem gagnast litlu landi norður í höfum eins og Íslandi.

Það hlægir mig að við skulum núna ræða þetta frumvarpsræksni um þjóðaratkvæðagreiðslur í stað þess að vísa því ekki út í hafsauga heldur til allsherjarnefndar svo að allsherjarnefnd geti fjallað um bæði þau frumvörp sem fram eru komin um þjóðaratkvæðagreiðslur og skilað sínu áliti til þingsins sem tekur væntanlega ákvarðanir sínar í framhaldi af því.