141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:39]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur: Það er sjálfsagt mál og ágætt að taka þetta allt saman, ná þessu saman á einn stað. Ég tel að flestar þær spurningar sem vaknað hafa á síðustu árum, um þetta ferli allt, hafi komið fram fyrir allnokkru og þess vegna hafi Ríkisendurskoðun einmitt unnið allar þessar skýrslur, og þær eru fjölmargar, og minnisblöð og samantektir til fjárlaganefndar einkum og sér í lagi. Það var gert vegna þeirrar umræðu sem hér hefur verið á undanförnum árum og þeirra spurninga sem vaknað hafa, og nokkrar þeirra ramma inn þessa umræðu.

Ég hef ekki séð í skýrslum nefndarinnar — ég hef ekki skoðað þær til hlítar, þannig að það kann að vera að mér hafi yfirsést eitthvað þar að lútandi, en ég mundi þá kannski vilja kalla eftir aðstoð þingmannsins af því að ég veit að hann hefur skoðað þetta mál vel — hvort einhvers staðar séu dæmi um að Ríkisendurskoðun beri því fyrir sig að hún geti ekki svarað fyrirspurnum vegna þess að hún hafi ekki haft nægilegan aðgang að gögnum til að geta myndað sér afstöðu til einstakra álitamála.