143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að virðulegur forseti ætti að hafa áhyggjur af því sem hér fór fram undir liðnum Fundarstjórn forseta. Hér var dregið fram með skýrum hætti viðhorf stjórnarliða til stjórnarandstöðunnar og raungerast þar óskir hæstv. forseta þar sem hann, í upphafi þessa þings, talaði um mikilvægi þess að bæta starfsanda, að auka virðingu þingsins og samskipti á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga. Ég hvet hæstv. forseta til að fara yfir þetta með forustumönnum flokkanna því hér er greinilegt að markmið hæstv. forseta, um betri vinnubrögð, samtal og vinnulag í þinginu, ætlar aldeilis ekki að ná fram að ganga.