145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu. Fyrst vil ég segja að þeir fjármunir sem fara til búvörusamninga eru til að tryggja neytendum aðgang að hollri gæðavöru á lægra verði.

Varðandi spurninguna um markmiðin þá er hér um að ræða þrjá samninga; um mjólk, kindakjöt og garðyrkju. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur að minni beiðni gert úttekt á mjólkurvöruframleiðslu frá 2004–2014. Í vor gerði Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri sambærilega úttekt á stöðu sauðfjárræktunarinnar til undirbúnings nýjum samningi og hvað garðyrkjuna varðar þá var nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2013 unnin út frá samningnum frá 2002–2012.

Varðandi mjólkursamninginn sjálfan þá eru markmið hans eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði og einnig að stuðningurinn nýtist sem best við að lækka vöruverð neytenda og að viðhalda stöðugleika sem hefur náðst á milli framleiðslu og eftirspurnar innan lands, að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni og hún fái að þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið. Einnig er markmið samningsins að unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu og að gætt sé sjónarmiða um dýravelferð og heilnæmi afurða.

Það leikur enginn vafi ef maður vitnar til skýrslunnar frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að umtalsverð hagræðing hefur orðið í mjólkurframleiðslu og -vinnslu á samningstímanum. Frá 2004–2014 fækkaði mjólkurframleiðendum úr 905 í tæplega 650 og á sama tíma jókst mjólkurframleiðslan úr 109 milljónum lítra í 145 milljónir á síðastliðnu ári. Stækkun á meðalbúi með greiðslumark hefur aukist um 80–90% eða úr 120 þúsund lítrum í um það bil 220 þúsund. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að á samningstímanum hafa opinber framlög lækkað verulega eða úr 65 kr. á lítra í 51 kr. á verðlagi 2013. Mjólkurverð til bænda hefur haldið í við verðbólgu á samningstímanum og aðeins umfram það en vegna minni styrkja hafa heildartekjur af lítra lækkað um rúmlega 5%. Heildsöluverð mjólkurafurða hefur lækkað umtalsvert á þessum tíma og sama gildir um smásöluverð mjólkurafurða, það hefur hækkað minna en neysluverðsvísitalan á samningstímanum. Að framangreindu má því vera ljóst að þau markmið sem lúta að því að auka hagkvæmni, stuðla að lægra vöruverði og því að stuðningur ríkisins nýtist sem best til að lækka vöruverð hafa náðst eða að minnsta kosti hefur miðað í rétta átt.

Eins og ég gat um þá gætir svolítillar bjartsýni í kúabúskap og nokkur endurnýjun hefur átt sér stað. Ég legg áherslu á varðandi þann galla sem hv. málshefjandi kom inn á, þ.e. eigngeringu kvótans, að við endurnýjun á mjólkursamningnum nú verði stuðningsforminu breytt þannig að stuðningsgreiðslur eigngerist ekki með sama hætti þannig að auðveldara verði fyrir unga menn og konur að hefja búskap og það sama á reyndar við um sauðfjárræktina.

Markmið sauðfjársamningsins eru að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu bænda, stuðla að nýliðun og að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu, örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar og stuðla að framþróun.

Bág afkoma hefur löngum verið vandamál í sauðfjárrækt. Á hinn bóginn er það þannig að mikill minni hluti sauðfjárbænda byggir afkomu sína alfarið á sauðfjárbúskap enda er tiltölulega einfalt að stunda aðra vinnu með búskap ef slíka vinnu er hægt að hafa í skikkanlegri fjarlægð. Það er engu að síður staðreynd að umtalsverð nýliðun hefur átt sér stað í stétt sauðfjárbænda undanfarin ár, jafnvel meiri en í kúabúskap, sem gæti komið á óvart miðað við afkomuna. Nýliðunin er jafnframt meiri eftir því sem fjær dregur höfuðborginni sem trúlega skýrist af því að svæðin henta betur til sauðfjárframleiðslu sem fjær eru. Í samningnum eru reyndar notaðir nokkrir fjármunir í nýliðun og þeir hafa hugsanlega haft einhver áhrif líka til þessa.

Hvað varðar markmið sjálfbærrar landnýtingar, þ.e. gæðastýrðrar framleiðslu, þá er ekki nokkur vafi í mínum huga að þessi vottun hefur skilað árangri og vitund bænda um hóflega nýtingu og uppgræðslu hefur vaxið mikið í seinni tíð.

Varðandi garðyrkjusamninginn þá voru tollar felldir niður á tómötum, gúrkum og papriku árið 2002. Það urðu reyndar fleiri breytingar, bæði á tollum og síðan fóru menn inn í lýsingu þannig að þeir gátu stundað heils árs framleiðslu. Það hefur haft verulega breytingu í för með sér og beinn ávinningur til neytenda og skattgreiðenda er umtalsverður að mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Það ber þó að hafa í huga að innlend blómarækt hrundi við þessar breytingar og að paprikuframleiðslan er mun minni en hún var áður.

Ég mun koma að áherslum í nýjum samningi og tengslum við byggðasjónarmið í lokaorðum mínum.