146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

stytting biðlista á kvennadeildum.

115. mál
[19:05]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Herra forseti. Ég er eini þingkarlinn í hópi vaskra þingkvenna sem leggja nafn sitt við þessa þingsályktunartillögu. Þetta er ekkert sérstakt smjaður af minni hálfu í garð kvenna heldur lít ég á þetta sem þjóðþrifamál. Hér er á ferðinni heilsubót handa þeim hluta þjóðarinnar sem hefur fengið það hlutverk að ganga með okkur og fæða okkur í þennan heim. Auk þess er þetta kjörið tækifæri til að efla starfsemi heilbrigðisstofnana víða um land.

En ég get ekki látið hjá líða að benda á þá staðreynd að það er bara ein ástæða fyrir þessum langa biðlista rétt eins og öðrum löngum biðlistum í heilbrigðiskerfinu. Stjórnvöld hafa nefnilega kosið að forgangsraða fjármunum með öðrum hætti, til annarra mála, undanfarin misseri. Þar mætti nefna 72 milljarða í margumrædda leiðréttingu. Þar mætti tína til þá staðreynd að hér var fellt niður sérstakt auðlindagjald á útgerðina. Það hefði skilað tugum milljarða ef því hefði verið haldið til streitu til dagsins í dag. Fyrir slíkar upphæðir hefði mátt hlúa þannig að þessum hluta þjóðarinnar sem ég nefndi hér áðan að hann þyrfti ekki að vera á biðlistum bryðjandi verkjalyf og líðandi kvalir heima við.