148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hv. forseti. Það kom fram í gær að verðbólga á Íslandi síðustu tólf mánuði nemur 2,3% en án húsnæðisliðar er verðbólga neikvæð, það er verðhjöðnun um 0,9%. Þennan mun greiða heimili landsins og fyrirtæki í hærri afborgunum af lánum og hærri greiðslubyrði.

Það er eftirtektarverð tilviljun að hér í gær, þegar þessar upplýsingar komu fram, lagði Miðflokkurinn fram frumvarp til laga um að framvegis taki verðtryggð lán breytingum samkvæmt neysluvísitölu án húsnæðisliðar. Ég skora á þingmenn alla að flykkja sér um þetta frumvarp til varnar heimilum í landinu og fyrirtækjum.

Það er annars eftirtektarvert hvernig verðbólguspár Seðlabanka Íslands hafa gjörsamlega verið lausar við að standast undanfarin ár. Að meðaltali er verðbólga í mælingum Seðlabankans, þ.e. framtíðarverðbólga, ofmetin um 0,4% innan árs, um 1,5% árið eftir, þ.e. eitt ár fram í tímann, um 1,9% tvö ár fram í tímann. Á þessu byggja seðlabankamenn m.a. stýrivaxtaákvörðun sína en sú næsta verður 14. mars.

Ég sá það í ágætri grein á netinu að fyrir nokkrum árum var kvikindi nokkurt, kolkrabbinn Páll, fenginn til að þess að spá í úrslit á heimsmeistarakeppninni í fótbolta. Hann var miklu nær úrslitum en Seðlabanki Íslands er í sinni verðbólguspá. Ég legg það til við peningastefnunefnd Seðlabankans að kannski væri ráð fyrir þá við næstu ákvörðun að spá í telauf. Ég trúi því ekki að sú ákvörðun sem þeir taka þá á þeim grundvelli verði miklu vitlausari en það sem við höfum horft upp á undanfarin þrjú og hálft ár.