149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

stytting biðlista.

[15:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hv. þingmaður beinir sjónum sínum sérstaklega að liðskiptaaðgerðum. Þau mál hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu. Af því að ég hef nú vikið máli mínu aðeins að biðlistum almennt, þá sérstaklega biðlistum eftir áfengis- og fíkniefnameðferð á Vogi, er rétt í því samhengi að taka fram að þegar um er að ræða liðskiptaaðgerðir gilda allt aðrar reglur um það hvenær fólk telst vera komið á biðlista og hvenær ekki. Það er meira að segja þannig að það er sérstök bið eftir því að komast á biðlista þó að það liggi algerlega fyrir að viðkomandi þurfi sannarlega á aðgerð að halda samkvæmt læknisfræðilegu mati.

Hv. þingmaður spyr hvaða breytinga sé að vænta í fjárlögum ársins 2019. Því er til að svara að um næstu áramót, áramótin 2018/2019, lýkur átaksverkefni sem var sérstaklega ætlað til þess að stytta biðlista eftir ýmsum aðgerðum. Nú er svo komið að í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir að þessi upphæð, sem er í kringum 900 millj. kr., sé varanlega í ramma fjárlaga.

Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að hér þarf að gæta að ýmsu, eins og til að mynda samstarfi heilbrigðisstofnana, þ.e. þeirra stofnana sem fara með þessar aðgerðir. Eftir því hefur verið kallað sérstaklega. Það eru Landspítalinn – háskólasjúkrahús, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, þar sem kallað hefur verið eftir því að þessar stofnanir stilli betur saman strengi en verið hefur til að tryggja að fólk bíði ekki kvalið eftir aðgerð þegar það er sannarlega þannig að viðkomandi ætti að vera í algjörum forgangi. Það er óásættanlegt, og ég er sammála hv. þingmanni um það, að fólk bíði kvalið mánuðum saman eftir aðgerð.