149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

málefni Hugarafls.

[15:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætlaði aðeins að spyrja hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra út í Hugarafl. Mér skilst að Hugarafl hafi rætt við ráðherra og fengið loforð um að skoðað verði að félagið sé að missa húsnæði sitt um áramótin. Eins og við þekkjum hefur Hugarafl misst nánasta samstarfsaðila sinn, GET, Geðheilsu – eftirfylgd, sem var skilgreint sem heilbrigðisþjónusta og var lagt niður eða a.m.k. hætt að fjármagna.

Hugarafl, sem er eftir, hefur mjög litla fjármögnun og missir húsnæði sitt um áramótin. Í raun og veru er verið að skilja rúmlega 400 félaga Hugarafls eftir í algerri óvissu með hvort starfsemin verði lögð niður eða ekki. Þar sem þetta er félag sem aðstoðar fólk með geðraskanir og alvarlegan vanda þykir mér ekki hægt að skilja fólk eftir í óvissu á þann hátt, sérstaklega ekki þegar búið var að tala um að nota ætti haustið til að ræða framtíð samtakanna. Nú er haustið búið og kominn vetur og enn óvíst hvað þau gera nákvæmlega varðandi húsnæði eftir áramót.

Hugarafl fær til sín fólk sem hefur fengið höfnun annars staðar, það er í gangi núna, en þau horfa fram á að geta ekki sinnt fólkinu. Það er gríðarleg þörf fyrir svona opið úrræði, bæði fyrir fólk sem tekur loks skrefið og leitar sér hjálpar, þarf tíma og utanumhald og endurhæfingu og eftirfylgni, og einnig til að sinna þeim sem eru í sjálfsvígshættu. Þau fá gífurlega eftirspurn eftir þjónustunni og vita ekkert hvernig þau geta veitt hana í framtíðinni. Það er ótækt að búa svona um hnútana.

Svo kemst ég kannski áfram í næsta hluta.