149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

málefni Hugarafls.

[15:24]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt sem þingmaðurinn nefnir, þegar gengið var frá húsnæðismálum Hugarafls í sumar eftir breytingar sem gerðar voru varðandi Geðheilsu – eftirfylgd er Hugarafl sá hluti sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið. Við áttum samtal við Hugarafl um með hvaða hætti væri hægt að finna á þessu lausn. Bráðabirgðalausnin var sú að ráðuneytið kæmi inn með aukið fjármagn svo Hugarafl gæti haldið því húsnæði sem það hafði fram til áramóta. Það má hafa hugfast að Hugarafl er með samning við Vinnumálastofnun í gegnum velferðarráðuneytið. Sá samningur er í gildi og ekki hafa verið gerðar neinar breytingar á honum. En Vinnumálastofnun hefur verið að skoða málefni Hugarafls núna í haust, ég veit að þau hafa verið í skoðun þar. Það er ekki komin endanleg niðurstaða en hún er væntanleg.

Ég tek bara undir með hv. þingmanni að í öllum úrræðum sem snúa að geðheilsu fólks og öðru slíku er gríðarlega mikilvægt að ákveðin fjölbreytni ríki, að fjölbreytt flóra úrræða sé í boði. Það er þess vegna sem Vinnumálastofnun og ráðuneytið hafa verið að skoða önnur sambærileg úrræði og með hvaða hætti sé best að finna þeim farveg til framtíðar.

En þetta mál er til skoðunar og Vinnumálastofnun hefur það hjá sér. Það er ekki komin formleg lending í það en hún er væntanleg.