150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni en það er eitt af því sem kom fram í seinni hluta ræðunnar sem mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann um, þ.e. þar sem talað er um hvernig fjármagna megi úrbætur í velferðarkerfinu. Þar leggur Flokkur fólksins til að staðgreiðsla verði við inngreiðlsu í lífeyrissjóð en ekki við útgreiðslu og segir að sú tillaga myndi skila ríkissjóði talsverðum fjármunum án þess að skerða ráðstöfunartekjur borgaranna.

Mig langar að spyrja nánar út í þetta og hvernig hv. þingmaður fær það til að ganga upp í heildarsamhenginu. Breytingin hefði í för með sér að í stað þess að greiða skatt af lífeyristekjum sem eru greiddar út úr kerfinu yrði gjaldið lagt á við inngreiðsluna. Með því er verið að færa skattbyrðina til á milli kynslóða, en ég ætla að koma að því nánar í síðara andsvari.

Það sem mig langar að spyrja meira út í er það sem kemur fram í umsögn ASÍ við þingmálið. Þar segir að miðað við forsendur í greinargerðinni þýði þetta að líkindum það að skattbyrði lægri lífeyrisgreiðslna hækki mest en skatturinn hjá þeim sem hafa háan lífeyri myndi lækka frá því sem nú er. Ég spyr: Hvernig gengur þetta upp ef það sem lagt er upp með er að greiðslubyrðin hjá þeim sem hafa lægstu ráðstöfunartekjurnar eigi að lækka mest? Ég fæ ekki séð að þetta gangi saman.