150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:45]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svar hans. Ég held að þetta sé nákvæmlega verkefnið sem við eigum að einhenda okkur í því að við þessar aðstæður er ljóst að löggjöfin eins og hún er klemmir okkur of mikið til þess að leysa fram hvata sem við getum notað til mótvægis við þann samdrátt sem við erum að fást við núna, sem verður vonandi tímabundinn.

Annar þáttur í ræðu hans, sem ég vildi ræða sérstaklega í andsvari við hv. þingmann, er vinnan við fjárlagagerðina og vinnan við fjárlagafrumvarpið. Ég er nefnilega ekki alveg á sama stað og hv. þingmaður þegar hann segir að þetta sé gagnlaus seta fjárlaganefndar í tvo mánuði með umsagnaraðilum nema síður sé. Ég held að mikilvægt sé í þessu sambandi að muna að við höfum fært þunga fjármálagerðarinnar fram á vorið og í fjármálaáætlunarvinnunni síðasta vor gerði meiri hluti fjárlaganefndar margar og stórar breytingar á framlagðri fjármálaáætlun. Mér finnst að mörgu leyti eðlilegt að þær breytingar sem eru að koma til nú á haustdögum séu meira í þeim takti sem við erum að vinna að núna og ræða í dag vegna breyttrar þjóðhagsspár og stillingar á þeim upphæðum sem byggjast á ýmsum tölum sem liggja undir og þá sé minna um stórar breytingar á fjárlagafrumvarpinu að hausti en þær sem við erum að gera að vori í fjármálaáætlun.

Það vildi ég líka segja við þá sem eru að senda erindi og umsagnir til fjárlaganefndar vegna fjármálaáætlunar að við erum raunverulega að aga okkur með þeim hætti að þunginn við fjárlagavinnu og fjárstjórn ríkisins fari fram í áætlanagerðinni að vori.