151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[19:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar við þessa 2. umr. um frumvarpið sem hér liggur fyrir, um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021, að fara fyrst stuttlega í gegnum meginpunkta frumvarpsins. Síðan ætla ég að segja nokkur orð um álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar með sérstakri áherslu á skattalega ívilnun tengiltvinnbíla. Fer mögulega síðan stuttlega í nefndarálit beggja minni hluta sem liggja fyrir og enda síðan á að ræða stuttlega um skýrslu Hagfræðistofnunar sem hefur verið töluvert mikið rædd í dag.

Fyrst vil ég byrja á frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021, svokallaðan bandorm eins og hann er alla jafna er kallaður. Það fyrsta sem mig langar að koma inn á í þessu samhengi er liður sem kallast Verðlagsuppfærsla krónutöluskatta. Hér er lagt til að verðlagsuppfærsla þessara krónutöluskatta verði 2,5% á milli ára. Um er að ræða kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt bensíngjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald og gjald á áfengi og tóbaki. Af þessari upptalningu blasir við að í engu skal haldið aftur af skattlagningu þeirra sem þurfa að aka um vegi landsins eða flytja vörur og hópum og fyrirtækjum sem þurfa að nota eldsneyti með einum eða öðrum hætti sem bera þessi gjöld.

Ég held að það hefði verið gustuk á því ári sem fram undan er, 2021, þar sem reikna má með að mörg fyrirtæki og heimili verði í vandræðum vegna þess ástands sem kórónuveirufaraldurinn orsakar, að það skref yrði stigið sem var tekið hér í lok árs 2014 af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þar sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, var einmitt líka fjármálaráðherra, að fyrir árið 2015 yrðu þessi gjöld ekki látin undirgangast það sem næst er að kalla sjálfvirka hækkun milli ára. Ég held að það hefði verið skynsamlegt að nálgast þessi gjöld með þeim hætti þetta árið. Það komu auðvitað upp sjónarmið fyrr í umræðunni í dag í tengslum við minnihlutaálit 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir ritaði undir, efasemdir um að ekki yrði bætt eilítið í, eins og samkvæmt orðanna hljóðan, en rétt er að halda því til haga að hv. þingmaður taldi mig misskilja orðalag minnihlutaálitsins eitthvað.

Ég vil ítreka að það hefði átt að stíga til baka með þetta, láta þessi gjöld vera óbreytt á milli ára. En þessi 2,5% hækkun virðist eiga að ganga í gegn og kemur þá til hækkunar gjaldanna og hefur með sér tekjuáhrif, sem sagt viðbótarskattlagningu í ríkissjóð upp á 1.800 millj. kr., 1,8 milljarða, samkvæmt mati á áhrifum frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þá mun verðlagsuppfærsla krónutölugjalda (áfengi, tóbak, eldsneyti og bifreiða- og kílómetragjöld) auka tekjur ríkissjóðs um 1,8 milljarða kr.“

Því er þá komið til skila og haldið til haga að þarna tel ég ekki skynsamlega á málum haldið þetta árið og nota hefði átt sömu nálgun og var gert fyrir árið 2015.

Næst vil ég koma inn á lið sem fellur undir Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra sem tengist síðan aftur næsta lið á eftir sem kallast Rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna. Þarna er gerð breyting sem er hugsuð til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Hérna er síðan lætt inn ákvæði, leyfi ég mér að orða það, þetta er eflaust ekki illa meint en það er nú samt þannig, og kemur í niðurlagi þessa liðar, lið 3.5, á bls. 10 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VII verði framlengt. Það leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2021.“

Það liggur því fyrir að frumvarp hæstv. fjármálaráðherra innifelur þessa heimild.

Næst vil ég koma inn á sóknargjöld og ætla að vísa í umfjöllun samflokksmanns míns, hv. þm. Birgis Þórarinssonar, um sóknargjöldin og tek ég undir þau sjónarmið sem þar komu fram.

Lið 3.8, sem heitir Gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda, langar mig að nefna sérstaklega í samhengi við skýrslu KPMG endurskoðunarfyrirtækisins frá 1. ágúst 2020 þar sem greining er unnin á kostnaði losunarheimilda. Það vil ég einkum nefna í ljósi óljósra svara hér í þingsal við óundirbúna fyrirspurn í liðinni viku þar sem hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að þetta væri allt saman mjög óljóst og erfitt væri að greina þann kostnað sem fyrir lægi að íslensk stjórnvöld þyrftu að takast á hendur í tengslum við Kyoto-bókunina svokölluðu. Þetta liggur allt fyrir og Umhverfisstofnun skilar samviskusamlega á hverju ári inn upplýsingum um það magn sem út af stendur. Allt er þetta til.

Næst langar mig að koma inn á sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins, svokallaðan nefskatt, þar sem er lögð til hækkun til samræmis við 2,5% hækkun krónutölugjalda og nefskatta. Langar mig í því samhengi að minna á hugmyndir okkar í Miðflokknum um að hluti nefskattsins, hluti útvarpsgjaldsins sem alla jafna er kallað svo, verði útfærður með þeim hætti að einstaklingum verði gefið frelsi til að ráðstafa hluta hans til annarra einkarekinna fjölmiðla, þá bara á skattskýrslu hvers árs. Það gæti haft veruleg áhrif á rekstrarstöðu innlendra fjölmiðla, hefði í för með sér mun meira frelsi heldur en þetta brogaða frumvarp sem hæstv. menntamálaráðherra hefur nú lagt fram aftur í tengslum við stuðning við einkarekna fjölmiðla. Ég held að horfa ætti á það í því samhengi að einfalda það kerfi, styðja við einkareknu fjölmiðlana um leið og rekstur Ríkisútvarpsins er endurskoðaður með það fyrir augum að reynt verði að komast af með hóflegri upphæðir en hingað til hefur verið gert, a.m.k. undanfarin misseri og ár.

Mig langar til að koma sérstaklega inn á breytingar á erfðafjárskattinum sem hafa nokkuð verið ræddar í dag. Ég vil fagna því sem þarna er lagt til þó að ég telji að þetta gangi allt of stutt. Þetta er skref í rétta átt en erfðafjárskatturinn er með ósanngjörnustu sköttum kerfisins hjá okkur. Ég held ég fari rétt með að í Bandaríkjunum kalli menn þetta „death tax“, dauðaskattinn. Þarna er auðvitað verið að skattleggja eignir hins látna sem hefur borgað fullan skatt af öllum þeim tekjum sem notaðar voru til að byggja upp þau verðmæti sem síðan erfast til arfþega. Ég held að við ættum að horfa til þess að útfæra þetta regluverk þannig að annaðhvort verði mjög hóflegur flatur skattur á arf sem þennan eða þá hreinlega það sem ég held að væri skynsamlegt, að afnema hann að fullu. Þetta eru að langmestu leyti hóflegar upphæðir en í prinsippinu skiptir það ekki öllu máli. Það er búið að skattleggja á fyrri stigum allar þær tekjur sem eru undirliggjandi hjá þeim sem fellur frá, þannig að í prinsippinu skiptir heildarupphæðin ekki máli. Þetta er ósanngjarn skattur, þetta er ranglátur skattur og við ættum að einhenda okkur í það að færa hann í heild sinni verulega niður í umfangi og helst afleggja með öllu. Ég held að það væri ágætisákvörðun sem er örugglega hægt að ná saman um á hinu háa Alþingi.

Þetta var það sem ég vildi segja um frumvarpið sjálft. Næst ætla ég í atriði í meirihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar sem hv. þm. Óli Björn Kárason mælti fyrir við upphaf umræðunnar. Það eru atriði sem snúa að skattalegri ívilnun tengiltvinnbíla, sem sagt 39. gr., og niðurfellingu virðisaukaskatts við endursölu vistvænna ökutækja. Ég fagna báðum þessum atriðum en vil líka draga fram að fleiri greinum er ekki til að dreifa hvað það varðar að lækka skattheimtu hins opinbera í nefndaráliti meiri hlutans. Þarna er lögð til skattaleg ívilnun tengiltvinnbíla og ég held að það sé vel og niðurfelling virðisaukaskatts við endursölu vistvænna ökutækja sömuleiðis. Það sem er verra við þetta er auðvitað að það flækir kerfið sem við ættum alla daga að vera að reyna að einfalda.

Í þessu samhengi vil ég minna á að enn er beðið eftir útspili ríkisstjórnarinnar, sem mér þykir nú líklegast að hæstv. samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson fari fyrir, þótt það gæti líka komið frá hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni, sem er útfærsla á hugmyndum stjórnvalda um framtíðargjaldtöku af akstri og ökutækjum. Það er óteljandi oft hér í þingsal búið að ræða mikilvægi þess að stjórnvöld séu viðbúin, séu búin að leggja línurnar fyrir það sem tekur við þegar hlutfall vistvænna ökutækja eykst og skatttekjur af bensín- og olíugjöldum lækka. Þing eftir þing er boðað að þetta sé væntanlegt þannig að hægt sé að rökræða það og takast á um þá nálgun sem þar verður lögð fram en enn bólar ekkert á þessu. Ég vil bara hvetja ríkisstjórnina, hæstv. samgönguráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, til að sýna á spilin hvað þetta varðar því að þetta skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að því að meta heildaráhrif reglubreytinga á ökumenn, sem sagt akstur og ökutæki í heild sinni. Þannig að ég vil halda þessu til haga og ítreka að verði þetta geymt mikið lengur þá blasir við að ríkisstjórnin treystir sér ekki í verkefnið, hún treystir sér ekki til að leggja fram sameiginlega sýn á það hvernig gjaldtöku af akstri og ökutækjum verði háttað til framtíðar. Þetta er mál sem er búið að flagga óteljandi oft í þessari pontu að sé nauðsynlegt að ganga til hið fyrsta og þörfin fer að verða alveg æpandi.

Mig langar til að koma örstutt inn á tvö nefndarálit sem liggja fyrir, frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir skrifar undir, og 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson skrifar undir. Í báðum þessum nefndarálitum er komið inn á kolefnisgjaldið. Ég vil halda því til haga að kolefnisgjaldið, sem verður samkvæmt þessu frumvarpi 6,1 milljarður á árinu 2021, ef ég man rétt, var 3,5 milljarðar þegar það var innleitt upphaflega. Það er alveg galið að viðhalda hér og hækka jafnt og þétt skattlagningu sem í fyrsta lagi mjög fátt bendir til að sé skynsamleg yfir höfuð en í öðru lagi virðist orðið ljóst að hún hefur ekki þau áhrif sem til er ætlast. Það er ekkert umhverfismarkmið sem næst með þessu, markmiðið sem er undirliggjandi um að draga úr bruna kolefnaeldsneytis, heldur virðist þetta bara vera hreinn viðbótarskattur sem leggst auðvitað á endanum á heimili þessa lands, annaðhvort með beinum hætti eða í gegnum hækkuð gjöld og hækkaðan kostnað fyrirtækja sem heimilin eiga síðan aftur viðskipti við.

Að því sögðu langar mig að fara stuttlega í skýrslu sem hefur verið nokkuð rædd hér í dag í tengslum við kolefnisgjaldið, því að það hefur komið margsinnis upp í umræðunni. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að vekja rækilega athygli mína á skýrslunni því að ég settist niður og las hana. Þetta er sem betur fer ekki lengsta skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þannig að tiltölulega fljótgert var að fara í gegnum hana. Ég vil koma inn á nokkur atriði og eitt það fyrsta er niðurstöður erlendra rannsókna á áhrifum kolefnisgjalda sem er komið inn á í þessari skýrslu. Hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir og Smári McCarthy sérstaklega höfðu töluverðar meiningar um að skýrslan undirbyggði þá skoðun að kolefnisgjöld þyrftu að hækka.

Fyrst varðandi úttektina á niðurstöðu erlendra rannsókna á áhrifum kolefnisgjalda. Árið 2018 bar fræðimaðurinn Erik Haites, ég vona að ég beri nöfnin rétt fram, saman áhrif kolefnisskatts í löndum í Evrópu og Asíu, auk Kanada. Niðurstöður hans eru, svo ég grípi inn í stuttlega, með leyfi forseta:

„Reyndar virtist útblástur sem skatturinn náði ekki til dragast meira saman en útblástur sem skatturinn náði til.“

Það er sem sagt meiri samdráttur í þeim skattflokkum sem kolefnisgjaldið nær ekki til heldur en þeim sem kolefnisgjaldið nær til.

Áfram heldur en árið 2018 birtu Kelly de Bruin og Aykut Mert Yakut rannsókn um áhrif kolefnisskatts á Írlandi og komust að þeirri niðurstöðu „að kolefnisskattur hefði ekki breytt notkun fólks á eldsneyti þar í landi“.

Áfram er fjallað um rannsókn Soocheol Lee, Hector Pollitt og Kazuhiro Ueta árið 2011 um ætluð áhrif kolefnisgjalda í Japan, með leyfi forseta:

„Þeirra niðurstöður bentu til þess að fyrirhugaðir kolefnisskattar í Japan myndu hvorki hafa mikil áhrif á útblástur né efnahag.“

Þetta ætti að duga til að ramma það ágætlega inn að allt þetta tal um mikilvægi kolefnisgjaldsins til að hafa áhrif á neysluhegðun einstaklinga og fyrirtækja er á mjög veikum grunni byggt, svo vægt sé til orða tekið.

Síðan er sérstaklega tekið fram í skýrslu Hagfræðistofnunar um áhrif gjaldsins, með leyfi forseta:

„Ef ráðstöfun skattteknanna er ekki tekin með í reikninginn er niðurstaða flestra sú að landsframleiðsla og atvinna minnki eftir að kolefnisgjald er lagt á. Skatturinn hefur meiri áhrif á lífskjör láglaunafólks en annarra.“

Það er algerlega ótrúlegt að heyra hér það sem stundum eru kallaðir samfylkingarflokkarnir, fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, tala fyrir því að það þurfi bara ef eitthvað er að bæta í. Ég skil í sjálfu sér að einhverju marki hvaðan samfylkingarflokkarnir komu í þessum efnum en mér er alveg fyrirmunað að skilja hvaðan hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kemur í þeim efnum.

Til að ljúka umfjöllun um þessa skýrslu Hagfræðistofnunar þá vil ég leyfa mér að vitna aftur í hana, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Þegar á heildina er litið má sjá að kolefnisgjöld hafa hingað til ekki haft mjög mikil áhrif á neyslu fólks […] af því má ráða að fólk sé tregt til að breyta neyslu sinni á eldsneyti þegar verð hækkar. Sökum þessa hafa kolefnisgjöld ekki orðið til þess að mikið hafi dregið úr útblæstri.“

Síðan ítrekar Hagfræðistofnun í lok skýrslunnar, með leyfi forseta:

„Kolefnisgjöld hafa meiri áhrif á neyslu og kjör á fátækum heimilum en öðrum og áhrifin eru líka mikil hjá einstæðingum.“

Ég vona að einhverjir þingmenn sem hafa varið þessa hörmungarskattheimtu í dag hlusti á það sem ég var að lesa upp því að ég gef mér að þeir sem vísuðu sem mest til þessarar skýrslu fyrr í dag hafi ekki verið búnir að lesa hana heldur bara tínt út stöku setningar á stangli hér og þar sem hentuðu málflutningnum. Við eigum að afleggja þennan skatt. Við eigum að afnema kolefnisgjald og skilja eftir þessa rúmu 6 milljarða í vösum skattgreiðenda.