151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[20:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Lágmarksframfærslan, grunnframfærslan, lágmarkslaunin og allt það hlýtur alltaf að snúast um hvað fólk hefur á milli handanna eftir skatta og skerðingar. Það skiptir ekki máli hvort það eru skattar og skerðingar af því sem fólk fær, svo lengi sem það sem eftir stendur sé a.m.k. nóg til að standa undir því að hafa í sig og á, að viðbættum hæfilegum hagnaði, myndi ég alltaf vilja segja, eins og er alls staðar annars staðar fyrir alla sem fara eitthvað með peninga. Að sjálfsögðu á það að eiga við þarna líka.

Annað sem var um fjallað um á þessum fjárlaganefndarfundi og er mjög áhugavert — ég hef verið að vera að reyna að elta þetta í þó nokkuð langan tíma — eru útskýringarnar á því af hverju framkvæmd 69. gr. almannatryggingalaga er eins og hún er. Lykilgrein í þessum lögum um það hvernig þessar fjárhæðir hækka á milli ára er að horft skuli til launaþróunar. Launaþróun er ekki til sem tæknilegt hugtak. Umboðsmaður Alþingis hefur t.d. fjallað um að hún sé mjög óskilgreind og í rauninni er bara hægt að skálda hver hún er, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Það sem er hins vegar mjög tæknilegt er vísitala neysluverðs. Það er eitthvað sem er hönd á festandi. Þessa upphæð skal uppfæra árlega að teknu tilliti til launaþróunar. Þarna er lykilorðið „árlega“ en samkvæmt lagatæknilegu útúrsnúningadóti má ekki uppfæra upphæðina oftar en einu sinni á ári. Menn fá ekkert afturvirkt, það er ekkert talað um það. Það gleymist hins vegar að upphæðin á a.m.k. ekki að vera lægri en vísitala neysluverðs. Það hefur alveg gerst nokkur árin að hækkunin samkvæmt lögum um almannatryggingar hefur verið lægri en vísitalan endaði síðan. Henni var því heldur ekki fylgt. Að vísu hefur sú þróun farið u.þ.b. 39% yfir vísitölu neysluverðs á öllum þessum árum. Það hefur því verið lagfært eftir á, (Forseti hringir.) stundum löngu eftir á. Eftir þetta erum við með 39% hækkun (Forseti hringir.) á tveimur áratugum á móti kannski einum áratug af 70% hækkunum á almenna vinnumarkaðnum.