151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[21:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar aðeins að halda áfram með umræðuna um sóknargjöldin, þau er hluti af þeirri ræðu sem ég ætlaði að halda. Eins og kom fram í andsvörum áðan við hv. þm. Þorstein Sæmundsson þá var hann væntanlega að vísa til zúista sem innheimta ekki félagsgjöld heldur taka félagsgjöldin frá ríkinu fyrir félaga sem eru skráðir hjá hinu opinbera. Það er skrá hjá framkvæmdarvaldinu um það hver er í hvaða lífsskoðunarfélagi, sem er til að byrja með náttúrlega galið. Það var enginn efi um það hversu margir félagarnir voru en það félag snerist einmitt um að fá sóknargjöldin og greiða þau síðan beint út til félaga sinna, í rauninni endurgreiðsla á því sem á nú að verða 1.080 kr. á mánuði. Munar nú um það fyrir marga. En jú, það fór sem fór. Það virtist vera smá svikamylla þar í gangi hjá ákveðnum aðilum þar innan borðs, þó að það hafi verið gert í góðri trú, að því er mér skildist, hjá þeim sem byrjaði á þessu. Svo voru einhverjar jústeringar í þessu hjá þeim sem yfirtóku félagið og einhver leiðindi þar á bak við. En mér finnst þetta vera frekar gott dæmi um það að ríkisvaldið á ekkert að skipta sér af þessum málum. Það á einfaldlega að taka lög um sóknargjöld og henda þeim í ruslið, leyfa lífsskoðunarfélögum að hafa félagsgjöld og rukka þau eins og um hver önnur almenn félagasamtök sé að ræða. Svo eigum við fara alveg með smásjá og horfa í gegnum öll nálaraugu á kirkjujarðasamkomulagið líka, fyrst við erum í því umræðuefni sem varðar trúmál. Það er eitthvað sem við ættum að athuga mjög vel.

Mér finnst áhugavert að í frumvarpinu er talað um að sóknargjaldið eigi að hækka í 980 kr. en í breytingartillögum meiri hlutans er síðan komið með auka 100 kr. til viðbótar á mánuði. Ég átta mig ekki alveg á því hvaðan sú krafa kemur. Alla vega hef ég fengið ábendingar um að þessu sé vinsamlegast hafnað, meira að segja frá lífsskoðunarfélögum, sem mér finnst mjög kómískt. Ég man ekki alveg hlutfallið í þessu, en þjóðkirkjan er náttúrlega að taka hluta í kirkjujarðasamkomulaginu sem er upp á dágóða milljarða á ári, 6–7 milljarða, eitthvað svoleiðis, á ári. Svo eru sóknargjöldin um 3,5 milljarðar, eitthvað því um líkt, þetta er eftir minni, ég hefði átt að krota þetta hjá mér eða koma upp með fjárlagafrumvarpið líka til þess að hafa þetta nálægt mér. Mig minnir að um 60% af sóknargjöldum fari til þjóðkirkjunnar. Hún er með skráða meðlimi og fær bæði úr kirkjujarðasamkomulaginu og svo sóknargjöldin. Manni dettur í hug að þetta sé bara fyrir þann hluta lífsskoðunarfélaga sem eru einmitt undir þjóðkirkjunni. Það væri áhugavert að sjá það betur.

Eins og svo oft áður erum við að fá inn breytingartillögur og nokkuð stórar, að því er mér finnst. Það er verið að hækka sóknargjöldin um 10% í meðferð meiri hlutans án þess að gefinn sé einhver umsagnartími um það. Þetta er grundvallarbreyting á tillögunni sem er lögð fram í frumvarpinu sem er þessi klassíska hækkun á ári samkvæmt verðvísitölu o.s.frv. Hér kemur auka hundraðkall í viðbót sem kemur eftir allt umsagnarferlið. Kannski var í einhverri umsögn heimtað hærra sóknargjald en þeir sem hafa haft samband við mig alla vega, sent ábendingar og ályktanir sinna lífsskoðunarfélaga, hvetja okkur til þess að hafna þessu. Mér finnst það áhugavert af því að þær umsagnir, eftir því sem ég veit, detta ekki endilega inn á málið. Það er búið að afgreiða málið úr nefnd og ef fólk sendir umsagnir um þessar breytingar, eftir að málið er komið úr nefndinni, eru þær ekki skráðar á það sem slíkar og eru ekki aðgengilegar almenningi. En hver veit, kannski verða þær skráðar þannig á einhvern hátt en ég efast um það.

Mig langaði til að fjalla líka örstutt um kolefnisgjaldið. Þetta er 25 aura hækkun á bensínhlutanum af kolefnisgjaldinu. Á sama tíma og það er búið að hækka gjöld til umhverfismála þá velti ég fyrir mér hvort það séu tekjur á móti. Þetta er spurning sem við í fjárlaganefnd báðum um að fá betri upplýsingar um. Ég var að skoða það núna í dag hvort það hefðu borist svör við því og fann það ekki í fljótu bragði enda erum við ekki með svo gott skjalavistunarkerfi til að fylgjast með því hvaða spurningar er búið að senda út og hvaða svör eru komin inn, þetta er dálítið kraðak. Maður þarf að fara í gegnum öll skjölin og giska, hér er skjal frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, best að opna það og athuga hvort þar sé svarið sem ég er að leita að við þessari spurningu. Þetta er bara ákveðin handavinna sem er ekkert rosalega skilvirk. Spurningin hljóðaði upp á það hvaða tekjur eru að koma til vegna þess kostnaðar sem við erum að leggja út í vegna umhverfismála. Hvað erum við að greiða fyrir þá mengun sem verður? Hverjir eru að því? Hvernig er verið að nota það fjármagn? Þetta liggur ekki svo ljóst fyrir og það er ekki svo augljóst í útskýringunum sem fylgja hver áhrifin eru í þessu samhengi af þessari hækkun upp á hvað — 4%, 2,5%? Ég á ekki að reikna í ræðustóli, það skilar ekki góðum árangri.

Síðan er annað mál sem mig langaði til að fjalla um. Það er breyting á lögum um málefni aldraða. Það er verið að hækka gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra um tæplega 300 kr., 296 kr. sýnist mér. Við glímum við skort á hjúkrunarrýmum og dagdvalarrýmum, þ.e. þeim rýmum sem taka við eftir t.d. meðferð á Landspítalanum. Við höfum spurt nokkrum sinnum í fjárlaganefnd, það hefur nú ekkert komið út úr því, hvernig farið er með fé í Framkvæmdasjóð aldraðra sem á að dekka kostnað af byggingu dvalarheimila og ýmsu svoleiðis, en dekkar í dag hlutdeild í kostnaði við rekstur þeirra út af breytingum sem voru gerðar eftir hrun. Til að finna pening einhvers staðar var sett pása á uppbyggingu dvalarheimila og í staðinn var þessi peningur notaður í rekstur þeirra og það hefur ekkert breyst síðan þá. Við erum enn þá að nota þetta fjármagn til að reka dvalarheimili en á sama tíma er þörf á fleirum. Þegar við spyrjum hvernig þetta vandamál, sem hefur oft verið kallað fráflæðisvandi, sé að leysast hafa svörin verið að það sé verið að leggja aukna áherslu á heimahjúkrun. Það er gott og blessað og frábært mál. En það svarar ekki spurningunni almennt séð hvernig eigi að skipta þessu fjármagni í Framkvæmdasjóði aldraðra og hvernig ætlunin var að skipta því. Á kannski hluti af því að fara í rekstur á heimahjúkruninni? Er þessi gjaldstofn til þess? Hann er það klárlega ekki núna af því að við breytingar á lögum um markaðar tekjur fer þetta allt í ríkissjóð og þegar, óbeint, er búið að hræra í honum er gefið fjármagn sem jafngildir þeirri upphæð sem kemur úr þessum gjaldstofni.

En það sem við sjáum er að gjaldstofninn skilar greinilega ekki ætlunarverki sínu. Þótt hann sé, samkvæmt lögum, til að byggja dvalar- og hjúkrunarrými, erum við samt með þetta vandamál með skortinn á því. Við erum með gjaldstofn til að byggja upp en við erum í stöðu þar sem er skortur. Það segir manni að annaðhvort er eitthvað gallað við þennan gjaldstofn eða að hann á kannski ekki að dekka alla þá þörf sem er þarna undir. Almennu skattstofnarnir, virðisaukaskatturinn o.s.frv., eigi að dekka afganginn. Þetta er vandamálið í hnotskurn sem ég er að reyna að lýsa. Það er allt óljóst í þessu ferli. Hvernig skilum við þeim árangri sem við þurfum að skila þegar það er skortur á hjúkrunar- og dvalarrýmum? Það hlýtur að vera annaðhvort vandamál með fjármögnun eða á einhvern hátt vandamál í framkvæmd og að koma fjármögnuninni til skila á skilvirkan hátt. Þegar við sjáum að hluti af þessu fjármagni fer í rekstur en ekki uppbyggingu eins og ætlunin er með þessum lögum hljótum við að klóra okkur í hausnum og verðum að taka aðrar ákvarðanir út af því vandamáli sem við sjáum, út af því hvert markmiðið var og út af því hvernig framkvæmdin er að klúðra því.

Enn og aftur. Þetta er bara einföld, lág hækkun, ég sé ekki prósentutöluna, ég gæti vippað upp símanum og reiknað þetta út á smátíma en það skiptir svo sem ekki máli, þetta er mjög lág hækkun í prósentum. Passar kannski inn í þessi 2,5% sem er alltaf verið að tala hérna um. Líklega. En vandamálið er samt til staðar í öllum þessum ákvörðunum sem er verið að taka. Það er verið að taka ákvörðun um 2,5% hækkun á öllum krónutölugjöldum. Það er minna en verðbólguspá, vissulega, en það býr líka til verðbólgu á sama tíma. Það er ekki verið að fylgja henni, þetta er hækkun fyrir næsta ár sem vindur upp á sig og býr til ákveðinn hvata og þörf til að fylgja henni eftir til að dekka þann kostnað sem verður til af hækkun á krónutölugjöldum.

Ef peningastefnan er sú að reyna að halda vísitölunni lágri og við látum bara Seðlabankann sjá um þá framkvæmd og Alþingi tekur ekki neinn þátt í þeirri vinnu er mjög undarlegt að ríkisstjórnin leggi það til við Alþingi að það eigi að koma 2,5% verðbólga í gjöldum sem ríkið tekur.

Það eru áhugaverðir hlutir í þessu frumvarpi og eins og hefur svo sem komið fram hérna áður er þetta engin bylting, ef maður má orða það þannig. Þetta er það sama og hefur verið áður. Sömu brotalamirnar, sömu gallarnir. Það er ekki verið að tækla þau vandamál sem allir vita af. Æ, þau hafa hvort eð er alltaf gengið svona og það sem við lögum gæti þess vegna orðið verra, er kannski hugarfarið. Það finnst mér mjög undarlegt hugarfar því að við eigum að kunna að geta sett kerfin okkar upp á nýtt af því að við vitum hvað tilgangi þau eiga að þjóna — eða hvað? Sama hversu oft ég spyr um t.d. kostnað við lögbundin verkefni hjá einhverri stofnun eru svörin alltaf: Við vitum það ekki. Við fáum bara þessa heildarupphæð og hún fer í öll verkefni sem við sinnum. Við vitum ekkert hvað þetta verkefni eða hitt kostar. Við vitum bara hvað heildin kostar, sem er mjög skrýtið. Ef þetta summast upp í einhverja heild þá hlýtur maður að þurfa að vita um partana. En einhverra hluta vegna virðist ákvörðunin alltaf að vera að giska á að heildarsumman nægi til að sinna verkefnum og skipunin er að vissu leyti þannig: Þú færð bara þessa heild og sinnir þeim verkefnum fyrir þá heild óháð því hvort það tekst eða ekki. Afleiðingarnar af því sjáum við brjótast út á ýmsum stöðum eins og löngum biðlistum og þess háttar. Hugsunin bæði í tekjuáætlun fjárlaga og í gjaldaáætlun fjárlaga virðist einmitt ganga á þessu prinsippi: Bara best að giska á hvað dugar. Skellum 2,5% á krónutölugjöldin, það veldur einhverjum tekjum aukalega sem við getum sett síðan í útgjöld hinum megin, án þess að hafa hugmynd um hvort þau útgjöld dugi eða ekki til að sinna þeirri þjónustu sem fólk á rétt á, án þess að hafa hugmynd um það hverjar afleiðingarnar eru af þeim breytingum sem ákveðnar eru á gjöldum til að reyna að sinna þeirri þjónustu sem hið opinbera býður upp á.

Þannig er vandinn á milli þess hvað það kostar að menga á móti tekjum af þeim gjöldum sem ríkið setur á. Það er ekki augljóst fyrir fólk sem vill skoða það. Þess vegna klórar fólk sér í hausnum og kvartar yfir kolefnisgjaldinu af því að það sér ekki áhrifin af því. Það er vissulega að borga fyrir mengunina en sér ekki afleiðingarnar af menguninni, sér ekki ávinninginn af því að koma í veg fyrir hana, sér ekki tengingu þarna á milli. Þó að lög um markaðar tekjur séu fallin brott þannig að útvarpsgjaldið fer ekki beint til Ríkisútvarpsins án millilendingar í ríkissjóði þá sjáum við samt tilganginn með lögunum sem útfæra gjöldin. Við sjáum það í lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra, sjáum tilganginn þar. Svo rennur gjaldið í gegnum ríkissjóð. Svo spyrjum við hvort ríkissjóður nái þeim markmiðum hinum megin sem gjaldheimtan setur. Svarið er nei. Svarið er einmitt nei í nokkurn veginn öllum tilvikum alls staðar í kerfinu, í öllum kerfum. Þá fer maður að spyrja sig að því: Hvað þýðir þetta frumvarp þegar allt kemur til alls? Erum við að setja réttlát gjöld sem skila þeirri þjónustu sem við ákveðum samkvæmt lögum að sé réttur fólks að fá? Svarið við því er nei.