151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[22:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða meginþætti þessa frumvarps undir dálítið ólíkum formerkjum. Það er væntanlega ákveðið réttlætismál að ná utan um skerðingarnar eins og hjá þessum eldri hjónum sem hæstv. ráðherra nefndi sem lenda í því þegar annar makinn fellur frá að hitt þarf að selja sumarhúsið og missir þá m.a. almannatryggingar á móti þeim söluhagnaði sem verður af litla bústaðnum í Grímsnesinu. Það er gott að ná utan um þetta. Í greinargerðinni segir að með þessu verði í flestum tilvikum komið í veg fyrir skerðingu bóta úr almannatryggingum. Mig langar að spyrja ráðherrann: Í hvaða tilvikum er ekki náð utan um þetta? Væntanlega viljum við, þegar ráðist er til atlögu við skerðingar sem fólki þykja ósanngjarnar, ná utan um þær allar.

Hins vegar varðandi annars vegar frítekjumark vaxtatekna og hins vegar að fella arð og söluhagnað undir frítekjumarkið þá staldra ég aðeins meira við og sérstaklega vegna þess, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, að þetta eru umtalsverðar fjárhæðir sem um ræðir. 1,5–1,8 milljarðar er ekkert klink og síst af öllu á þessum tímum þegar virðulegur hv. formaður fjárlaganefndar er að hamast við að halda sjó í rekstri ríkissjóðs. Þá virðist skjóta dálítið skökku við að opna fyrir á annan milljarð út úr ríkissjóði. Þess vegna staldra ég við mat á áhrifum. Hér er lagt mat á fjárhagsáhrif fyrir ríkið en hefði ekki farið vel á því að meta t.d. áhrif á jafnrétti kynjanna, af því að mig grunar að það geti verið kynjamunur á því hvaða fólk hefur miklar vaxtatekjur eða tekur arð og söluhagnað til sín, (Forseti hringir.) og eins bara áhrif á tiltekna þjóðfélagshópa. Mig grunar að (Forseti hringir.) þó að hér sé um almenn lög að ræða geti á sama tíma verið mjög sértækur, lítill hópur sem þetta nær til (Forseti hringir.) og það er eitthvað sem við þurfum að hafa fyrir augunum áður en við tökum ákvörðun í svona máli.