131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[16:48]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki er ég alveg viss um að það sé rétt hjá hv. þm. að það séu einkum stjórnarandstöðuflokkar hverju sinni sem tortryggi fjárframlög til stjórnmálaflokka og þá á hv. þm. væntanlega við stjórnarflokka. Ég held hins vegar að það sé eðlileg tortryggni sem alltaf er til staðar í upplýstu og opnu samfélagi gagnvart flokkum sem vitað er að þiggja framlög frá fyrirtækjum og svo er um alla flokka á Alþingi Íslendinga. Það er fullkomlega eðlilegt að almenningur setji fram kröfu um að hann geti gengið úr skugga um hvort fjárframlög hafi einhver áhrif á afstöðu stjórnmálaflokka eða einstakra stjórnmálamanna.

Ég tel þannig, frú forseti, að ekki sé bara nauðsynlegt að setja skýrar reglur um fjárframlög til stjórnmálaflokka heldur ekki síður til stjórnmálamanna. Við skulum ekki gleyma því að eins og kerfinu er háttað í pólitík þurfa stjórnmálamenn oft að ganga í gegnum mjög erfið og kostnaðarsöm prófkjör. Hvaðan fá þeir peninga til þess að kosta milljóna baráttu? Væntanlega frá fyrirtækjum og þannig hefur það verið. Sumir hafa rekið óheyrilega dýra kosningabaráttu. Mér finnst það sanngjörn og eðlileg krafa að það liggi ljóst fyrir hvar menn fá peninga til þess. Þetta á að gilda bæði um stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka.

Það er rétt sem hv. þm. sagði, það á að vera hægt fyrir einstaklinga að styrkja stjórnmálaflokka þannig að slíkt sé hafið yfir alla tortryggni og ég er ánægður með að hv. þm. segir: Öryggisventillinn, sem á að gæta hagsmuna almennings í þessu tilliti, gæti sem best verið Ríkisendurskoðun. Mér finnst það mikilvægt að í þessari umræðu skulum við tveir, hæstv. viðskiptaráðherra og hv. þm. Helgi Hjörvar, sem hefur vakið máls á þessu, öll vera sammála um þetta. Það veit á gott í þessu máli.