137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Nú held ég áfram ræðu minni frá því áðan. Ég lýsti því áðan hvernig framsóknarmenn hafa allan þann tíma sem ég hef fylgst með þeim barist gegn þjóðaratkvæðagreiðslum (Gripið fram í.) og ég vil aðeins minna á það að núna eru þeir allt í einu orðnir helstu forvígismenn þeirra. (Gripið fram í: En þú?) Batnandi fólki er best að lifa, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Ég verð að minna menn á það að fyrir tveimur mánuðum kaus þjóðin, hún kaus m.a. um Icesave. Hún kaus sér 63 nýja þingmenn. (Gripið fram í.) (Háreysti í þingsal.) (Gripið fram í: Ha? Kaus hún um Icesave?) (Gripið fram í: Já.) (Gripið fram í: Nú?) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Bið ykkur um að gefa ræðumanni hljóð.)

Má ég aðeins fá að klára að svara? Það er ekki mjög þægileg aðstaða þegar maður reynir eftir fremsta megni að fá að koma að svörum og fær ekki nokkurt einasta tækifæri til þess. Ég var að segja að nýlega fól þjóðin okkur, þessum 63 þingmönnum, að leysa úr bankahruninu, að leysa úr því sem fráfarandi stjórnarliðar í 20 ár skildu eftir sig. Þar á meðal er Icesave. Þar á meðal er núna 9% atvinnuleysi. Þar á meðal er skuldaklafi heimila og fyrirtækja, 500 milljarðar í nýtt bankakerfi. Ég verð að segja, hv. þingmenn, að Icesave er ekki stærsta málið af þessum málum í mínum huga og ég treysti þessari ríkisstjórn og þingheimi (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) til að leiða þetta Icesave-mál til lykta. (Gripið fram í.) Ég tel ekki nauðsynlegt að fara með það í þjóðaratkvæði. Það er bara þannig. Þetta er ekki stærsta málið sem á okkur hvílir og áður en ég fer úr ræðustól (Forseti hringir.) vil ég segja að það er rangt eftir haft, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, að Steingrímur J. Sigfússon hafi sagt að Icesave-málið væri of flókið (Forseti hringir.) til að leggja það í þjóðaratkvæði. Það sem hann hefur sagt er að það væri vandi að stilla því upp hver hinn valkosturinn ætti að vera. (Gripið fram í.)

Ég vona að ég hafi svarað (Forseti hringir.) þessari spurningu þingmannsins. Ég hefði mátt vita að það skiptir engu máli (Forseti hringir.) hvað hv. framsóknarmenn (Forseti hringir.) spyrja um. Þeir eru bara með Icesave á heilanum.