137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal spyr einmitt hvernig eigi að bregðast við varðandi opinbera starfsmenn. Ég held að það komi ágætlega fram í skýrslunni að ef við erum að tala um að skera niður opinberan rekstur til lengri tíma þá er óhjákvæmilegt að opinberum starfsmönnum fækki nokkuð. Það er sagt beinum orðum.

Það var jafnljóst þegar við fórum í við fjárlögin 2009 að það ætti að bíða með slíkt á meðan við færum í gegnum þessa erfiðleika, það væri ekki rétti tíminn til að segja upp fólki og færa það frá opinberum stofnunum yfir á Atvinnuleysistryggingasjóðinn.

Varðandi kjararáðið og hlutafélögin þá er þegar búið að taka ákvörðun um hvað kjararáð eigi að fjalla um. Aftur á móti er svo viðkomandi forstöðumönnum falið að endursemja við starfsmenn og í flestum tilfellum ef um er að ræða laun sem eru nálægt því að vera forsætisráðherralaun þá eru það laun utan kjarasamninga. Menn hafa talað um að verja kjarasamningana og þann grunn sem þar er en taka á viðbótarkjörum sem viðgengust hér um árabil á meðan við höfðum úr nógu að spila. Það var til dæmis afar áberandi þegar ég kom að fjárlagagerðinni árin 2007 og 2008 að þá var röksemdin fyrir framúrakstrinum til dæmis í heilbrigðiskerfinu greiðslur vegna þenslunnar, það voru yfirborganir sem þurfti að grípa til til þess að tryggja mannskap í samkeppni meðal annars við fjármálalífið. Það eru þessir hlutir sem við erum að tala um að snúa til baka. Það skilar umtalsverðum peningum og hefur þegar gerst og það hefur komið fram í umræðunni að ýmis aukakostnaður eða launatengdur kostnaður hjá starfsmannahaldinu hefur lækkað verulega bara á síðustu vikum, bæði launakjörin en ekki síður síðan greiðslur fyrir ýmis önnur störf, nefndastörf og annað sem kostar umtalsvert í þessu kerfi, aksturspeningar og dagpeningar og annað slíkt. Þetta hefur allt saman verið lækkað og verður auðvitað haldið áfram. (Forseti hringir.) En við skulum ekkert vera að fela okkur með það að það á eftir að bitna á opinberum starfsmönnum eins og öðrum sá (Forseti hringir.) samdráttur sem fyrirsjáanlegur er.