137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við fjöllum um skýrslu fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum. Mig langar rétt í upphafi, af því að hv. þm. Valgeir Skagfjörð vitnaði í merkan dægurlagahöfund, að byrja á því líka og taka tvær setningar úr ljóði eða lagi eftir hann þar sem segir:

Ég held við ættum stundum að hugsa aðeins betur

um tilfinningar þeirra sem erfa munu land

því kannski er næsta kynslóð kynslóðin sem getur

komið fram með svörin þar sem sigldum við í strand.

Það er vert að nefna að þetta dægurlagaskáld hefur samið mjög mikið af lögum sem fá menn til að hugsa víðsýnt og hugsa djúpt og skoða hlutina út frá öðrum sjónarhornum.

Þegar íslenska fjármálakerfið hrundi seint á síðasta ári má segja að allar forsendur í íslensku efnahagslífi og einnig íslensku samfélagi hafi brostið. Fjármál ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga voru þar með í uppnámi. Þetta hefur leitt til þess að staða ríkissjóðs er nú slæm og halli ársins 2009 er áætlaður 170 milljarðar. Sé ekki brugðist við þessum halla er hætta á því að ástandið verði enn verra. Því hefur verið unnin ítarleg áætlun um það hvernig þessum halla verði náð niður. Ætli þjóðin að ná sér upp úr þeim öldudal sem hún er í er mikilvægt að allir taki höndum saman við það sem fram undan er, samstarf við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila í þjóðfélaginu er afar brýnt á þessari stundu.

Fyrsti hlutinn í þessari vegferð hefur verið samþykktur á þinginu en það er 20 milljarða aukaniðurskurður frá fjárlögum 2009 og næstu aðgerðir munu birtast í fjárlögum næsta árs. Forgangsröðun á tímum sem þessum er gríðarlega mikilvæg og í upphafi þess aðhalds- og niðurskurðartímabils sem er að hefjast er vert að skoða þá hópa sem ekki tóku þátt í því góðæri og þeirri bankaútrás sem nú er verið að skera niður vegna. Þar má nefna marga ellilífeyrisþega, öryrkja, láglaunafólk auk þess sem stór svæði á landsbyggðinni hafa mátt búa við neikvæðan hagvöxt og fólksfækkun allt góðæristímabilið.

Hvað snertir landsbyggðina þurfa þessi sömu landsvæði að taka á sig niðurskurð til jafns á við önnur svæði. Þarna má t.d. nefna að vegaframkvæmdum víða á landsbyggðinni var frestað á sínum tíma vegna þenslunnar á góðæristímabilinu. Nú þurfa þessi svæði því miður að taka á sig frestanir vegna niðurskurðar í ríkisfjármálum. Það eru einnig vonbrigði að í þeim verkefnum sem nefnd hafa verið í tengslum við mögulega fjármögnun lífeyrissjóðanna þá er stærstur hluti þeirra verkefna á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu en því miður hafa enn sem komið er ekki verið teknar inn stórar framkvæmdir á landsbyggðinni þar sem samgöngur er hvað verstar. Þetta er þó ekki endanleg niðurstaða og er mikið atriði að lögð verði áhersla á stór verkefni á landsbyggðinni þar sem samgöngur eru hvað verstar og möguleikar til að stytta vegalengdir miklar. Þarna má t.d. nefna Vaðlaheiðargöng sem reyndar hafa verið í umræðunni undanfarna daga auk tengingar milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða.

Í kaflanum Atvinnulíf og fjölgun starfa á bls. 2 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld munu leggja áherslu á skapa atvinnulífinu þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að verja og styðja við atvinnustarfsemina í landinu.“

Þarna erum við komin að þeim punkti sem skiptir að mínu mati mestu máli varðandi möguleikana á því að ná sér upp úr þeim öldudal sem við erum í.

Skuldir ríkissjóðs á erlendri grund, afborgunarbyrði og vaxtakostnaður af þessum skuldum kallar á róttækar aðgerðir til að efla innlenda framleiðslu og draga úr gjaldeyrisútstreymi. Það verða mikil gjaldeyrisvandamál í landinu næstu árin, það er staðreynd. Sá gjaldeyrir sem þjóðarbúið aflar þarf að duga til þess að standa undir erlendum skuldum, ekki bara ríkis heldur einnig sveitarfélaga, orkufyrirtækja og fleiri aðila sem hafa verið að fjármagna sig beint erlendis frá. Það sem út af stendur þarf að duga fyrir þeim vörum og þjónustu sem Íslendingar þurfa á að halda til að reka íslenskt samfélag. Niðurstaða þessa er sú að þeim mun hraðar sem innlend framleiðsla nær sér á strik þeim mun auðveldari verður þessi vegferð. Það verða íslenskar hendur, íslenskur mannauður og íslenskar auðlindir sem munu ná okkur upp úr þeim öldudal sem við nú erum í. Nú liggja sóknarfæri þjóðarinnar í þeim atvinnugreinum sem hafa verið markvisst drepnar niður á undanförnum árum. Þar má nefna ýmsan iðnað. Þar má nefna húsgagnasmíði, húsasmíði, járnsmiðjur, bátaviðgerðir o.fl. Þar má einnig nefna landbúnað, matvælaframleiðslu, úrvinnslu sjávarafurða og fleiri atvinnugreinar. Við þurfum að tryggja þessum atvinnugreinum nauðsynleg og góð framleiðsluskilyrði með öllum mögulegum ráðum.

Þær atvinnugreinar sem hafa átt erfitt uppdráttar vegna óhagstæðrar gengisþróunar og lítils skilnings stjórnvalda gegna nú mjög mikilvægu hlutverki í uppbyggingarstarfi næstu ára. Ég bendi til að mynda á einkavæðingu Áburðarverksmiðju ríkisins á sínum tíma sem er gott dæmi um það hvernig íslensk framleiðsla hefur verið gefin og brotin niður í þágu einkavæðingar. Það væri fróðlegt að fara yfir rekstrarmöguleika hennar núna ef ríkið ætti hana enn og hversu mikinn gjaldeyri slík verksmiðja gæti sparað þjóðarbúinu auk þess sem þetta mundi efla matvælaöryggi. Ég nefni einnig Sementsverksmiðjuna sem nú hefur verið einkavædd og miklar deilur stóðu um á sínum tíma. Hversu mikinn gjaldeyri sparar hún og hversu mikla vissu höfum við fyrir því að hún verði rekin áfram? Einnig má nefna fóðurverksmiðjur víðs vegar um land sem voru einkavæddar og í framhaldinu aflagðar. Nú eru menn að ræða um að koma slíku upp aftur og ég spyr: Hversu mikinn gjaldeyri gæti það sparað? Ég nefni einnig hvaða áhrif það hefði haft ef óheftur innflutningur á hráu kjöti hefði náð fram að ganga eins og fyrrverandi ríkisstjórn lagði áherslu á. Það mundi leiða til fækkunar starfa og aukins útstreymis á gjaldeyri. Nú þarf að grípa til róttækra aðgerða til að skapa þessum grunnatvinnugreinum þjóðarinnar góð skilyrði.

Og þarna má nefna auk þess sem áður hefur verið nefnt: Að stórefla kornrækt í landinu þar sem mikilvægt er að tryggja að íslenskt korn verði að mestu notað til fóðurgerðar, t.d. fyrir svín, kjúklinga og nautgripi. Þessi aðgerð mundi leiða til mikillar fjölgunar starfa víðs vegar um land eins og nýlega hefur verið bent á í skýrslu hvað þetta varðar. Að efla innlenda garðyrkjuframleiðslu með því að bæta framleiðsluumhverfi garðyrkjunnar og leita allra mögulegra leiða til að draga úr innflutningi á grænmeti sem hægt er að framleiða á Íslandi. Að stöðva eða draga úr óheftum innflutningi á kjötmeti til landsins. Að setja tímabundna tolla á sement og aðrar þær byggingavörur sem hægt er að framleiða hér á landi. Að auka strandveiðar og tryggja fulla nýtingu á t.d. rækju sem hefur lent í kvótabraski undanfarin ár eins og komið hefur fram í fjölmiðlum síðustu daga. Að efla vinnslu sjávarafurða hér á landi með lagasetningum og miðstýrðum aðgerðum.

Þarna er bent á nokkrar aðgerðir sem gefa okkur möguleika á því að auka gjaldeyri, efla atvinnu og styrkja byggð um land allt. Ég bendi á að sumar þessara aðgerða hafa verið framkvæmdar eins og t.d. að nú liggur fyrir matvælafrumvarp án hráa kjötsins. Ég nefni aukna takmörkun í innflutningi á hráu kjöti og strandveiðar sem mikil ánægja er með víðs vegar um land. Auk þess eru margar þessara aðgerða í vinnslu en sé farið yfir öll lán Íslendinga, vexti og greiðslubyrði þeirra þá er mikilvægt að ráðast í þessar aðgerðir sem fyrst. Við verðum að standa saman og verja landsbyggðina eftir mesta megni því að þar eru sóknarfærin mest.

Frú forseti. Ég vil að lokum segja að til að ná efnahagslegu sjálfstæði á nýjan leik og vinna okkur upp úr þeim erfiðleikum sem við erum í verðum við að halda fullu sjálfstæði. Trúin á að ESB muni bjarga íslensku þjóðinni er algerlega úr lausu lofti gripin og mun á engan hátt bjarga þeim gjaldeyrisvanda sem við verðum í á næstu árum. Ég hvet þingheim allan til að slá ESB endanlega út af borðinu og hefjast handa við að ráðast samhent í þær aðgerðir sem nefndar hafa verið að framan. (Gripið fram í.)