137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér erum við fyrst og fremst að ræða um brýn verkefni dagsins í dag. En það er sjálfsagt að taka þessa langtímastefnumörkunarumræðu við hv. þingmann og það er út af fyrir sig ágætt hjá hv. þingmanni að vísa til þess hvernig trúverðugleiki landa í Austur-Evrópu hefur aukist við það að hefja aðildarferlið.

Hitt er þó nærtækara að eftir að hafa orðið fyrir miklu fjárhagslegu áfalli og fjármálakerfi hrunið bæði hjá frændum okkar Svíum og frændum okkar Finnum sem eru hvorir tveggja ríki sem við sækjum jafnan samjöfnuð til, þá var það niðurstaða beggja þessara þjóða að það væri mikilvægur þáttur í endurreisnarsamstarfinu að fara inn í Evrópuferlið. Hv. þingmaður verður að muna að hluti af EES er því miður ekki að fá úrlausn mála fyrir Evrópudómstólnum og er því miður ekki evran en hvort tveggja hefði getað gagnast okkur gríðarlega mikið í stórum hagsmunamálum á allra síðustu árum. Það að taka stefnuna þangað mun þess vegna til langtíma efla trúverðugleika okkar þó að það muni ekki leysa verkefni okkar í dag.