137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef mikinn áhuga að heyra skoðun hv. formanns efnahags- og skattanefndar á því að það kemur fram ákveðin fullyrðing í þessu plaggi um að verið sé að hafa ákveðna hliðsjón af reynslu annarra þjóða sem gengið hafa í gegnum sambærilegt aðlögunarferli, til dæmis Danmörk, Finnland og Svíþjóð.

Nú benti Mats Josefsson á að staðan hér væri á engan hátt sambærileg við það sem gerðist í þessum löndum heldur mætti kannski miklu frekar líkja ástandinu hjá okkur við viss lönd í Asíukreppunni, t.d. Indónesíu frekar en til dæmis Svíþjóð eða Finnland sem við virðumst vera óskaplega gjörn á að kíkja á. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af því að sjá þessar tölur þar sem verið er að miða við tekjur ríkissjóðs og hlutfall af vergri landsframleiðslu því að hvað gerist — það sem við óttumst kannski öll er að hér verði algert hrun í einkageiranum. Mér skilst að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafi bent á að fjöldi gjaldþrota fyrirtækja væri í pípunum. Af því að við erum alltaf að tala um prósentutölur hérna þá höfum við áhyggjur af því að grunnforsendurnar fyrir þessari skýrslu, sem er meira að segja litprentuð, séu hreinlega ekki réttar. Síðan vil ég fá að bæta við og bið um stutt svar, já eða nei: Er það ekki rétt skilið hjá mér að til sé fyrir stórum hluta afborgana af skuldum ríkissjóðs 2011 af því að þetta hefur verið notað sem gjaldeyrisvaraforði og því sé til gjaldeyrir fyrir þessum afborgunum?