137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[19:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hennar í þessa umræðu. Hv. þingmaður kom inn á marga athyglisverða punkta. Það er alveg ljóst að menn ræða mjög um ráðgefandi og bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. En meðan þessu hefur ekki verið breytt í stjórnarskránni þá er ekki um annað að ræða en að þjóðaratkvæðagreiðslan sé ráðgefandi. Ég vil minna á að í Noregi hefur tvisvar sinnum verið farið í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Noregs að Evrópusambandinu. Það var borið undir þjóðina með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í bæði skiptin. Líka væri hægt að nefna Svíþjóð og Finnland í því sambandi að því er varðar mikilvæg mál sem voru borin undir þjóðina. Það var þá ráðgefandi en ekki bindandi. En ég held að við hljótum að stefna að því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu bindandi. Í mínum huga kemur ekkert annað til greina varðandi það sem kemur út úr þjóðaratkvæðagreiðslu sem borin er upp um aðild að Evrópusambandinu en að hún sé bindandi. Það er bara pólitískt þannig að stjórnvöld hljóta að fara eftir þeirri niðurstöðu sem þar kemur fram.

Að því er varðar skuldbindingar eins og Icesave sem hér hefur verið nefnt þá vil ég minna á að í frumvarpi til stjórnskipunarlaga sem var flutt á síðasta þingi, af fulltrúum fjögurra stjórnmálaflokka, voru undanskilin ákveðin ákvæði sem menn töldu að væri ekki rétt að væru bindandi. Þar var nefnd þjóðaratkvæðagreiðsla um fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum. Ég býst við að Icesave mundi falla undir það að þar væri verið að framfylgja þjóðréttarlegu skuldbindingum sem ekki væri rétt að færi undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar er um að ræða umdeilda innstæðutilskipun en það er skuldbinding sem þjóðin hefur gengist undir varðandi EES-samninginn og ég býst við að það mundi flokkast undir þjóðréttarlegar skuldbindingar.

Ég mun svara í næsta andsvari því sem ég ekki komst yfir núna.