138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

orð forsætisráðherra um Suðvesturlínu.

[13:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú get ég glatt hv. þingmann með því að það er engin ástæða til að hafa neinar áhyggjur af þessu máli, það liggur algerlega skýrt fyrir. Það er rétt, það stendur í stöðugleikasáttmálanum að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að greiða götu þeirra framkvæmda sem þegar höfðu verið ákveðnar, höfðu fengið tilskilin leyfi og höfðu gengið frá samningum, þar var línan dregin í sandinn. En það ber ekki að túlka þessi orð þannig að það stæði eitthvað annað til en að framfylgja eðlilegri stjórnsýslu og fara að lögum og reglum, þar á meðal lögum um mat á umhverfisáhrifum og stjórnsýslulögum. Það verður gert og svo lengi sem menn hafa það á hreinu, hvort sem það eru úrskurðir ráðherra eða meðferð mála sem tengjast Suðvesturlínu eða öðru, er enginn vandi á ferðum. Þá stendur ekkert annað til og hefur aldrei staðið annað til en að ástunda faglega og vandaða stjórnsýslu í umhverfisráðuneytinu sem og annars staðar og það er misskilningur ef menn leggja einhvern annan skilning bæði í orðalag stjórnarsáttmálans og einstakar yfirlýsingar ráðamanna.