138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

verkaskipting milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis vegna hjúkrunarheimila.

[14:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. 1. janúar 2008 fluttist yfirstjórn öldrunarmála til félags- og tryggingamálaráðuneytisins og fer það ráðuneyti frá og með þeim tíma með málefni aldraðra og uppbyggingu öldrunarþjónustu á hjúkrunarheimilum. Heilbrigðisráðuneytið fer hins vegar með mál er varðar sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum. Heilbrigðisráðuneytið fer auk þess með yfirstjórn hjúkrunarrýma á heilbrigðisstofnunum og með heimahjúkrun og allt er þetta samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og reglugerð um Stjórnarráð Íslands.

Hjúkrun og umönnun á hjúkrunar- og dvalarheimilum er einn hlekkur í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Til þess að geta samhæft og veitt heilbrigðis- og umönnunarþjónustu á því stigi sem eðlilegast er, er mikilvægt að hafa heildaryfirsýn yfir fjármögnunina, reksturinn og skipulag þjónustunnar. Það held ég að allir hljóti að sjá. Rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, heilsugæslu, heimahjúkrunar, hjúkrunarrýma á heilbrigðisstofnunum og eftirlit með heilbrigðisþjónustu er því á verksviði heilbrigðisráðuneytisins og reyndar landlæknis, sem fer með eftirlitið að þessu öllu saman.

Með flutningi á hjúkrunar- og dvalar- og dagvistarrýmum til félags- og tryggingamálaráðuneytisins er vissulega hætt við að þessi yfirsýn rofni og það getur orðið erfiðara að samhæfa þjónustuna þannig að einstaklingar fái þá heilbrigðisþjónustu sem er eðlileg miðuð við þörf og ástand hins aldraða.

Mig langar, áður en ég vík að spurningum hv. þingmanns, að nefna hér fjögur atriði sem skipta nokkru máli í þessu sambandi. Hjúkrunarheimili eru dýrasta úrræði í þjónustu við aldraða og langveika, ef sjúkrahús eru undanskilin. Hvert rými kostar um 8 millj. kr. og meginstefna heilbrigðisyfirvalda í öldrunarmálum hefur verið að aðstoða fólk við að vera heima eins lengi og mögulegt er, ekki aðeins til þess að spara heldur líka til þess að auka lífsgæði þeirra sem þjónustunnar njóta.

Í öðru lagi vil ég nefna að það er rétt sem hv. þingmaður sagði, að ef hjúkrunarrými á hjúkrunarheimilum flytjast nú til félags- og tryggingamálaráðuneytis um áramót verða eigi að síður 412 af 2.800 rýmum eftir inni á heilbrigðisstofnunum sem ætluð eru sem hjúkrunarrými fyrir langveika og aldraða og eru þau a.m.k. að 95% setin öldruðum.

Í þriðja lagi vil ég nefna að með nýju og markvissara vistunarmati uppfylla færri skilyrði þess að komast inn á hjúkrunarheimili en áður. Og það er rétt sem hv. þingmaður sagði, að fólk er mun veikara þegar það fer inn á hjúkrunarheimili en áður. 519 einstaklingar voru á vistunarskrá fyrir hjúkrunarrými á landinu öllu fyrir einu og hálfu ári en aðeins 199 núna í október.

Í fjórða lagi langar mig til þess að upplýsa að það er hagkvæmara að veita einstaklingi heimahjúkrun í 24 skipti á viku en eftir það verður kostnaður við heimahjúkrun dýrari en kostnaður við hjúkrunarrými.

Frú forseti. Ég þakka þingmanni fyrir spurningar um rökin fyrir breytingunum og hvert mat þeirrar sem hér stendur er á þeim. Í upphafi benti hv. þingmaður á að ekki hefði farið fram mikil pólitísk umræða um þá breytingu sem fyrirhuguð er nú um áramótin og ég verð að taka undir það. Hún hefði mátt vera meiri. Þegar spurt er um rökin er grunnhugmyndin auðvitað sú að ekki eigi að sjúkdómavæða ellina. Ég held að það sé meginröksemdin auk þess mikilvæga stefnumiðs að samþætta alla þjónustu, félagslega þjónustu, heimilisaðstoð og heimahjúkrun, eins og ég nefndi áðan, ekki til þess að spara heldur vegna hagræðis þess sem þjónustunnar nýtur.

Loks telja menn að það sé mikilvægt að slá ekki af heldur halda áfram undirbúningi að yfirfærslu málefna fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaganna þrátt fyrir hrunið. Spurt er hvort ráðherra telji breytinguna til bóta. Ég játa að ég er ekki sannfærð en mikilvægast er þó að þjónustan við þennan hóp skaðist ekki þótt fjárveitingar og skipulag þjónustunnar verði flutt milli ráðuneyta. Eftir sem áður mun heilbrigðisráðuneytið ábyrgt fyrir gæðum þjónustunnar.

Það má segja að málið sé nú í höndum þingsins. Ég tel mikilvægt að hv. heilbrigðisnefnd og hv. félags- og tryggingamálanefnd fái til sín verkefnisstjórn þriggja ráðuneyta sem nú vinna að þessum málum og fari ítarlega með henni yfir stöðuna, einkum hvaða vandamál kunni að koma upp á hverjum stað hringinn í kringum landið, sem og þörfina fyrir ný hjúkrunarheimili og rekstrarfé til þeirra. En það er ekki nóg að mínu viti. Ég tel mikilvægt að líta líka til heimahjúkrunarinnar í því sambandi því að það þarf fyrst og fremst að samþætta þjónustuna við aldraða þannig að hún verði á einni hendi.