138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

viðvera ráðherra.

[14:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þær upplýsingar sem hér komu fram en ég ætlaði einmitt að fara fram á það við forseta að hún beitti sér kröftuglega fyrir því að hæstv. forsætisráðherra verði við þessa umræðu bæði í dag og í kvöld ásamt hæstv. fjármálaráðherra, því að það vantar svo sannarlega að hæstv. forsætisráðherra sé viðstödd umræðuna nú fyrir helgina. Það er því mjög mikilvægt að þessi skilaboð hafi komist áleiðis og ég reikna þá með, frú forseti, að þessir tveir ráðherrar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, gefi sér tíma til að vera við umræðuna í dag og framhald hennar. Það er mjög mikilvægt að við getum átt orðastað við þessa ráðherra, ekki síst í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra fann að því í óundirbúnum fyrirspurnum í dag að verið væri að ræða þau mál sem eru á dagskrá. Ég ætlast til að ráðherrarnir séu hér og geti tekið þátt í þeim umræðum sem hér verða.