138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vísun Icesave aftur til nefndar.

[20:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég tel ástæðu til að ítreka það sem aðrir þingmenn hafa bent á um mikilvægi þess að forsætisráðherra láti sjá sig og hlýði á ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hvað eftir annað hefur komið í ljós að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki verið með á nótunum um frumvarpið sem hér er til umræðu, svo ekki sé minnst á Icesave-samningana sjálfa.

Það er til að mynda kjörið tækifæri að setja sig inn í hlutina með því að hlusta á ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals, treysti ég á eftir að hafa heyrt hv. þingmann fara yfir málið á fyrri stigum. Jafnframt hafa verið fluttar hér ræður í allan dag, og núna er klukkan korter yfir átta, sem hefðu gagnast hæstv. forsætisráðherra mjög.

Ég ítreka það sem ég nefndi áðan, það þjónar litlum tilgangi að láta þingið sitja hér langt fram á kvöld ef ekki er vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar til að hlusta.