139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[16:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fram. Svo að ég segi það í upphafi þá er margt gott í frumvarpinu en margt mjög varhugavert. Kannski fyrst að því sem verið er að leiðrétta hér til að bregðast við dómi Hæstaréttar frá því í vor — þeir sem voru með þessi gengistryggðu lán eru þá komnir, ef ég mætti orða það þannig, á svipaðar slóðir og þeir sem voru með íslensku lánin. Þeir þurfa þá eingöngu, þó það sé nú hálfsérkennilegt orðalag, að búa við þann stökkbreytta höfuðstól sem verður af hækkun á verðtryggingunni.

Þetta er nú kannski ekki nýtt í umræðunni hér í þingsal. Fyrir rúmu ári vorum við að ræða skuldavanda heimilanna og þá tók ég til máls og benti á að þetta væri hugsanleg leið til að ná einhverjum sáttum. Heimilin sem tóku gengistryggðu lánin urðu fyrir miklu meira áfalli, þó að nóg sé nú hjá hinum heimilunum, þegar gengið stökkbreyttist og rúmlega tvöfaldaðist. Þeir sem tóku þau lán eru þá komnir með svipuð kjör og þeir sem voru með lánin í íslenskum krónum. Því er ekki að neita að það þarf samt að gera meira fyrir heimilin, það liggur alveg fyrir.

Nú er hæstv. ríkisstjórn búin að láta sérfræðingahóp vera að störfum í nokkrar vikur. Hann er búinn að skila af sér þeim útreikningum sem honum var falið að gera. Ég vænti þess að ríkisstjórnin fari nú að girða sig í brók og koma með einhverjar tillögur. Maður er búinn að heyra mjög lengi að þær séu væntanlegar eftir næstu helgi, sú helgi hlýtur að fara að ganga í garð. Það er mjög mikilvægt að menn taki á þessum vanda í eitt skipti fyrir öll.

Því má heldur ekki gleyma að aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar hafa verið í þá veru að leggja frekari álögur á heimilin með því að hækka skatta og þar fram eftir götunum. Það hefur ekki verið til að bæta ástandið. Það er gríðarlega mikilvægt að komið verði til móts við skuldsett heimili og svo að fjölskyldurnar komist út úr því óöryggi sem þær hafa í allt of langan tíma lifað við.

Mig langar líka að velta því fyrir mér í þessari umræðu, þó að þetta sé nú bara 1. umr., hvort ekki mætti líka takmarka það hverjir mættu taka erlend lán. Nú er verið að tala um að heimilt verði að gera það hér eftir og þá koma sveitarfélögin fyrst upp í hugann. Ég teldi mjög skynsamlegt fyrir hv. efnahags- og skattanefnd að skoða það sérstaklega. Sú umræða hefur reyndar verið í hv. samgöngunefnd að menn geri það með því að sveitarfélögum sem ekki hafi tekjur í erlendri mynt verði nánast bannað að taka slík lán eða það skoðað mjög alvarlega hvað þau mega skuldsetja sig hátt í erlendri mynt.

Virðulegi forseti. Mig langar að staldra aðeins við, og kannski velta því upp við hæstv. ráðherra, ef hann gæti komið að því í seinni ræðu sinni, ákvæðið í I. kafla í frumvarpinu þar sem heimilt verður fyrir fyrirtæki að taka erlent lán. Verið er að bregðast við dómi Hæstaréttar þar sem kveðið var upp úr um það að erlend lán eða lánin með gengistryggingu væru að sumu leyti ef ekki öllu leyti ólögleg, þ.e. ef fyrirtæki hafa tekið erlend lán og fengið útgreiddan erlendan gjaldeyri, greitt af lánunum í erlendum gjaldeyri, eru þau lögleg eins og þetta er skilið.

Hæstv. ráðherra hefur komið inn á það á undanförnum dögum að mjög mikilvægt sé að ráðist verði í fjárhagslega endurskipulagningu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það er til háborinnar skammar að um 7.000 fyrirtæki þurfa þessa leiðréttingu en rúmlega 200 hafa fengið hana, eins og hæstv. ráðherra hefur bent á. Að sjálfsögðu hefði þetta þurft að vera löngu búið. Þetta stendur því fyrir þrifum að hér geti orðið betri þróun í efnahagsmálum en verið hefur.

Ef hæstv. ráðherra beitir sér fyrir því gagnvart lánastofnununum að þau fari í þessa vinnu hvað mun þá gerast lagalega séð gagnvart þeim fyrirtækjum sem fara í endurskipulagningu? Hvað gerist hjá fyrirtækjum sem hugsanlega eru, samkvæmt dómi Hæstaréttar, þó eftir eigi að dæma í sambærilegum málum þeirra fyrirtækja, með ólögleg erlend lán? Bankarnir eru að ganga að þeim og ég spyr hvort þau lokist þá inni í nýjum samningum. Ég tel mjög mikilvægt að þetta verði skoðað sérstaklega þannig að lánastofnanirnar geti ekki pínt lítil eða meðalstór fyrirtæki inn í einhverja nýja samningaleið og skuldaleiðréttingu án þess að tryggt sé að fyrirtækið tapi ekki þessum rétti sínum ef hann er fyrir hendi.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að taka undir það með hv. þm. Helga Hjörvar að það er gríðarlega mikilvægt að þessum verkefnum verði flýtt. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni hér áðan að þessari vinnu ætti að vera lokið fyrir sumarið. Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra komi því til leiðar að það verði þá í síðasta lagi um vorið en ekki að það dragist um heilt ár í viðbót. Það er algjörlega óásættanlegt að mínu viti.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á það sem kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu. Í frumvarpinu er bent á að fjármálafyrirtækjunum var ljóst að lán með gengistryggingu í erlendum gjaldmiðli væru ólögleg. Það er rakið í fylgiskjölum með frumvarpinu að lánastofnanirnar vissu að þetta fyrirkomulag á lánveitingum hvort heldur var til einstaklinga eða fyrirtækja sem fengu ekki greidd út í erlendri mynt inn á erlenda gjaldeyrisreikninga væri ólöglegt. Það er tekið fram hér og sérstaklega er hnykkt á því. Það kemur líka fram að lánastofnanir eða fjármálafyrirtækin gerðu einmitt athugasemdir þegar frumvarpið var afgreitt 2001 um að því þyrfti að breyta til að þetta væri löglegt. Síðan kemur líka fram að frumvarpinu var í engu breytt þrátt fyrir þessar ábendingar lánastofnananna eða fjármálafyrirtækjanna en eftir sem áður halda fjármálastofnanirnar áfram að lána með gengistryggingu í erlendum gjaldmiðli.

Ég verð að viðurkenna að það kemur mér spánskt fyrir sjónir að þegar lesið er áfram í athugasemdum með frumvarpinu er algjör þversögn miðað við það sem að framan stendur. Þar kemur fram, með leyfi forseta, ég ætla að fá að lesa það hér upp:

„Fyrirtækin eru oftar en ekki með raunverulegar eða keyptar gengisvarnir, eins og augljóslega má ráða af tölum um hlutfall sjávarútvegsfyrirtækja í þessum hópi skuldara samkvæmt tölunum hér að framan. Slík fyrirtæki hafa engu tjóni orðið fyrir og því bersýnilega ósanngjarnt að þau njóti einhvers ávinnings á kostnað viðsemjenda sinna vegna samninga sem þau sjálf sóttust eftir að gera með gengisviðmiðun.“

Mér finnst þessi fullyrðing algjörlega innstæðulaus. Að ætla að halda því fram að fyrirtækin hafi sett bönkunum skilyrði til þess að veita sér gengistryggð lán, það er bara alrangt.

Ég vil líka minna á það, af því ég nefndi það sem stóð hér að framan, að þó að mörgum fyrirtækjum, stórum eignarhaldsfyrirtækjum eða stórum fyrirtækjum í rekstri, hafi verið þetta ljóst þá höfðu margir þeirra sem reka lítil eða meðalstór fyrirtæki ekki hugmynd um að þetta væri ólöglegur gjörningur. Mér finnst það því algjörlega óviðunandi að þessi texti skuli vera þarna. Þetta er rangt, ég fullyrði það. Ég tel mikilvægt að efnahags- og skattanefnd breyti þessari vitleysu svo að hún verði ekki til ævarandi skammar.

Ég vil líka gera athugasemd við það sem hæstv. ráðherra sagði í andsvari við mig áðan — tíminn er nú mjög lítill, ekki nema ein mínúta í andsvari. Fullyrt er að sjávarútvegsfyrirtæki hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni í efnahagshruninu. Hvers konar endemis vitleysa er þetta? Eru menn ekki farnir að átta sig á því enn að það voru bankarnir sem hrundu yfir fyrirtækin en ekki fyrirtækin yfir bankana? Það er nú bara einu sinni þannig. Þessi útskýring hæstv. ráðherra á því hvað eru sjávarútvegsfyrirtæki — það eru bara öll fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi, en ég verð bara að minna á að það eru tugir ef ekki hundruð fyrirtækja í sjávarútvegi sem hafa ekki tekjur í erlendri mynt.

Vitnað er til þess hér að fyrirtækin hafi getað keypt sér gengisvarnir. Þeir sem voru ekki með tekjur í erlendri mynt gátu ekki keypt sér gengisvarnir vegna þess að þegar þessir framvirku samningar um gengishagnað voru gerðir var að stærstum hluta verið að selja gjaldeyri fram í tímann. Það gátu þeir einir gert sem höfðu tekjurnar í gjaldeyri. Það var gert á þann veg að menn gerðu samninga, kannski til eins árs eða tveggja, um að selja evrur eða einhvern þann gjaldmiðil sem viðkomandi fyrirtæki var að selja vöruna í, fengu þá álag miðað við gengið sem skráð var þann daginn. Við skulum segja að fyrirtæki hafi verið búið að endurnýja slíkan samning tvisvar eða þrisvar, þá var það, ef við segjum að evran hafi verið 90 kr., kannski að fá 95 kr. fyrir evruna sem verið var að gera gengisskiptasamninginn í.

Það sem varð hins vegar mjög erfitt fyrir mörg fyrirtæki eru hinir svokölluðu framvirku samningar sem mörg fyrirtæki eru með. Þeir eru reyndar margir hverjir óuppgerðir í dag, þeir virkuðu nefnilega öfugt fyrir fyrirtækið þegar gengið hrundi. Þá voru menn búnir að selja framleiðsluna sína, þ.e. tekjuflæði fyrirtækisins fram í tímann, jafnvel heilt ár eða meira, á föstu gengi sem var kannski 95 kr. þegar evran fór upp í 200. Þessi fullyrðing stenst enga skoðun. Ég vænti þess að hv. efnahags- og skattanefnd fari vel yfir þetta þannig að svona vitleysur séu ekki inni. Þetta stenst ekki.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þessi fullyrðing, um að sjávarútvegsfyrirtækin hafi ekki orðið fyrir tjóni, er alröng.

Ég vil líka koma aðeins inn á það sem hæstv. ráðherra sagði þegar hann svaraði skriflegri fyrirspurn í gær — og fyrir hana ætla ég að þakka. Ég var búinn að reyna að ná svari út úr forvera hans og fékk ekkert svar, spurningin var nákvæmlega eins orðuð en ég fékk ekkert nema útúrsnúninga, ekki neitt annað. Ég ætla því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að bregðast við fyrirspurn minni, svara henni á þennan veg, það er mjög mikilvægt að þetta komi fram.

Í svari hæstv. ráðherra kemur fram að bankarnir eða fjármálastofnanirnar keyptu fyrirtækjalánin að meðaltali með 60% afslætti. Ég hef verulegar áhyggjur af því, virðulegi forseti, að bankarnir eða fjármálastofnanirnar muni á endanum ekki skila þeim afslætti til fyrirtækjanna, ég hef af því verulegar áhyggjur.

Upp í hugann kemur, af því að maður var að ræða þetta fyrir nokkrum mánuðum, allur sá mikli hagnaður fjármálastofnana sem var á fyrsta árinu eftir hrun. Hvað veldur honum? Það er ekki það að þær séu að lána til einhverra fyrirtækja, það er allt í frosti þar. Bankarnir hirða vaxtamun út úr Seðlabankanum sem fer síðan út úr ríkissjóði, þetta er svona hringur, vítahringur. En fjármálastofnanirnar hafa verið að gera annað, þær hafa verið að hækka vaxtaálagið á mörg fyrirtæki í landinu, ég þekki það.

Vaxtaálagið sem fyrirtæki voru með var kannski í kringum 2%, frá 1,7 upp í rúm 2%. Hvað gera síðan lánastofnanirnar þegar þær eru að endurnýja lánin eða semja við fyrirtækin eða bara breyta þeim einhliða? Þær eru í mörgum tilfellum búnar að setja vaxtaálagið í 4% og rúmlega 4%. En það sem þær gera, og er öllu verra, er það að í þeim tilfellum sem þær kaupa með 60% afslætti hækka þær vaxtaálagið á alla kröfuna. Fyrirtæki skuldaði kannski einn milljarð við fall bankanna, bankinn kaupir það á 400 milljónir inn í nýja bankann en síðan setur hann vaxtaálagið upp um helming á milljarðinn. Þeir eru því búnir að fimmfalda vaxtaálagið á viðkomandi fyrirtæki miðað við það sem var. Þetta er algjörlega glórulaust. Þetta er kannski eitt af því sem er líka að lama fyrirtækin, draga úr því að þau taki þátt í hinni efnahagslegu endurreisn — ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra um að það er gríðarlega mikilvægt að fyrirtæki nái fótfestu til þess að koma súrefni inn í hagkerfið.

Gæti verið hætta á því að bankastofnanirnar, sem eru þá í flestum tilfellum að vinna fyrir erlenda kröfuhafa, muni ná að mjólka öll þau fyrirtæki sem í landinu eru þannig að þau verði skuldaþrælar bankanna? Ég hef miklar áhyggjur af því og sporin hræða. Ég tel ekki sjálfgefið að þær muni skila þessu, a.m.k. ekki algjörlega mótþróalaust.

Það er þó kannski stærsta málið hvort frumvarpið skapi á einhvern hátt skaðabótaskyldu fyrir ríkissjóð og hve mikil hún er þá. Ég er mjög þakklátur fyrir það, og tel það mjög skynsamlegt, eins og hæstv. ráðherra sagði hér áðan, að þegar hv. efnahags- og skattanefnd fer yfir málin fái hún öll þau gögn sem eru í ráðuneytinu. (Forseti hringir.) Það tel ég mjög mikilvægt.