140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að það muni auka virðingu þingsins þegar hv. þingmenn koma hingað upp og kalla hver annan fífl en ég ætla ekki að taka þátt í því.

Ég ætla að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar, formann hv. efnahags- og viðskiptanefndar, um hluti sem ég hef mjög miklar áhyggjur af. Hv. þm. Helgi Hjörvar, sem ég vil hrósa fyrir formennsku í efnahags- og viðskiptanefnd því að mér hefur fundist hann vera sanngjarn formaður og vilja gera hlutina vel, fjallar nú ásamt okkur hinum um skattalagabreytingar í nefndinni. Við höfum fengið fjölda gesta og komið hefur í ljós að flækjustigið í skattalögunum núna hefur skapað gríðarlega mikinn vanda, búið er að breyta skattalögum 140 sinnum frá því að þessi hæstv. ríkisstjórn tók við. Það er alveg ljóst að við eigum alveg eftir að svara spurningum um hvaða áhrif það hefur til dæmis að festa í sessi auðlegðarskatt, þann eignarskatt, því að það gerum við með því að framlengja hann. Komið hefur fram í nefndinni að fólk hefur flust úr landi vegna þess skatts. Það þýðir að við missum skatttekjur, ekki bara auðlegðarskatttekjur heldur líka tekjuskatt, neysluskatt og meira að segja erfðafjárskatt.

Við erum heldur ekki búin að fjalla um hvaða áhrif það hefur til frambúðar að skattleggja viðbótarlífeyrissparnaðinn og ég held að allir sem um það hafa fjallað telji að það muni eyðileggja það skattform. Ég hvet hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar til að tryggja (Forseti hringir.) að við förum vel yfir það og að við fáum svör við þeim spurningum um hvaða afleiðingar þessar skattbreytingar, og auðvitað aðrar en sérstaklega þessar, hafa.